Skoðun

Aftur til hægri

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Að mörgu leyti eru fjárlög mikilvægasta stefnuplagg stjórnvalda á hverjum tíma. Þar birtist forgangsröðun stjórnvalda. Undanfarin ár hefur fjárlagagerð hins vegar borið þess merki að hér varð hrun árið 2008, meðal annars með þeim afleiðingum að halli á ríkissjóði varð hátt í 200 milljarðar. Eðlilega hefur svigrúm stjórnvalda til að leggja pólitískar línur takmarkast af þeirri stöðu.

Ríkisstjórn Vinstri-grænna og Samfylkingar lyfti grettistaki í að rétta við fjárhag ríkissjóðs. Um leið birtust pólitískar áherslur þar sem minna var skorið niður í heilbrigðis- og velferðarmálum og menntamálum en öðrum málaflokkum. Pólitískar áherslur birtust líka í því að tekna var aflað og því farin blönduð leið tekjuöflunar og niðurskurðar.

Við gerð síðustu fjárlaga fyrir árið 2013 ákvað síðasta ríkisstjórn að setja enga niðurskurðarkröfu á Landspítalann. Enn fremur var ákveðið að fara í sérstaka tekjuöflun til að efla fjárfestingu í landinu. Leiðarljós fjárfestingaáætlunar var fjölbreytt atvinnuuppbygging á sviði ferðaþjónustu, byggingariðnaðar, rannsókna, nýsköpunar og skapandi greina.

Nú liggur fyrir fjárlagafrumvarp nýrrar ríkisstjórnar og stefnubreytingin er algjör. Aftur er haldið í niðurskurðarleiðangur og í staðinn afsalar ríkisstjórnin almenningi tekjum – t.d. með því að hætta við sérstakt veiðigjald og falla frá hækkun á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu. Boðað er að auðlegðarskattur verði ekki framlengdur og sama má segja um orkuskattinn. Í stað tekjuöflunar er meiri þungi á niðurskurð á grunnþjónustu. Grunnþjónustu á borð við heilbrigðisþjónustu, framhaldsskóla og háskóla. Þá er boðuð aukin gjaldtaka og eru legugjöld á sjúklinga alræmdasta dæmið um það. Í stuttu máli ber fjárlagafrumvarpið skýrt vitni um að horfið er frá félagslegum áherslum og tekin upp skýr hægristefna. 

Síðast en ekki síst er horfið frá öllum hugmyndum um fjárfestingu og uppbyggingu. Eina atvinnuhugmynd nýrrar ríkisstjórnar er fleiri álver. Þegar langtímaáætlun í ríkisfjármálum er skoðuð má sjá að ekki er gert ráð fyrir neinum afgangi á fjárlögum 2015 og 2016. Það er því ekki stefnt á að greiða niður skuldir í fyrirsjáanlegri framtíð og það virðist engin von um uppbyggingu á innviðum. Þetta er framtíðarsýn nýrrar ríkisstjórnar.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×