Skoðun

Af hverju borða þau ekki kökur?

Árni Stefán Jónsson skrifar
„Þrátt fyrir mikið aðhald og sparnað er það ásetningur ríkisstjórnarinnar að standa vörð um velferðarkerfið.“ Þetta voru orð Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, á Alþingi í liðinni viku.

Eftir á að hyggja er það sannarlega ekki skrítið að honum skyldi finnast þörf á að taka þetta sérstaklega fram í ræðu sinni, því flestum er ómögulegt að sjá þennan góða ásetning í hinu margnefnda fjárlagafrumvarpi. Þar má þvert á móti sjá niðurskurð til heilbrigðismála, spánnýtt gistináttagjald á spítalann, minni framlög til framhaldsskóla, hækkun skólagjalda, afnám vinnumarkaðsúrræða, lækkun barna- og vaxtabóta og fleira í þeim dúr. Hvernig er þetta að standa vörð um velferðarkerfið, spyrjum við launafólk?

Tekjur ríkisins eru af skornum skammti, það vitum við öll. Ábyrgðarleysi ríkisstjórnarinnar sem hóf kjörtímabilið á því að henda frá sér sanngjörnum tekjustofnum sem hefðu getað fært ríkinu auknar tekjur er því algjört. Skorið er niður í nýjum nýsköpunarverkefnum sem hefðu veitt fjölmörgum atvinnutækifæri, styrkir til rannsókna eru snarminnkaðir og tónlistar- og kvikmyndaiðnaðurinn frystur.

Það stefnir í algjöra einsleitni, sem er afar hættuleg þróun fyrir lítið land á 21. öldinni. Niðurskurður til atvinnubótaverkefna og fræðslu ... hverju skilar það? Meiri hagvexti, hærra menntunarstigi – aukinni velsæld? Nei, það skilar atvinnuleysi og aukinni misskiptingu.

Harðasta frjálshyggja

Sagan segir að Marie Antoinette Frakklandsdrottning hafi einhverju sinni spurt að því hvers vegna soltinn almúginn borðaði ekki bara kökur þegar fólkið kvartaði undan því að eiga ekki fyrir brauði, seint á 18. öldinni.

Sagan er að vísu lygasaga og á sér enga stoð í raunveruleikanum, ekki frekar en orð ráðherrans. En hún lýsir engu að síður skilningsleysi og viðhorfi hinna ríku til stöðu þeirra sem minna eiga. Ólíkt Frakklandsdrottningu komst núverandi ríkisstjórn til valda ekki síst fyrir þær áherslur sem hún þóttist hafa gagnvart fjölskyldufólki og skuldavanda heimilanna.

Nú sýnir hún hins vegar sitt rétta andlit. Allar aðgerðir ríkisstjórnarinnar hingað til hafa einkennst af hörðustu frjálshyggju. Útgerðirnar og auðmennirnir hafa fengið kjarabætur á silfurfati með lækkun veiðigjalda og afnámi auðlindaskattsins. Þetta tvennt var sett í forgang og frá því gengið á fyrstu dögum stjórnarinnar.

Þetta er stefna stjórnvalda eins og hún birtist í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar – að auka bilið milli ríkra og fátækra. Til að friða almenning er hent til hans brauðbitum í formi falskra skattalækkana, þar sem þeir efnameiri fá meira og þeir fátæku og tekjulægri fá minna.

Ef ekkert verður að gert mun þetta leiða til stóraukinnar einkavæðingar bæði í heilbrigðis- og skólakerfinu. Aukin gjaldtaka í skóla- og heilbrigðiskerfinu er fyrsta skrefið í þá átt. Þetta er það sem ríkisstjórnin kallar kerfisbreytingu. Hér er um að ræða grundvallarstefnubreytingu í íslensku velferðarkerfi sem krefst þess að almenningur greiði fyrir þjónustu sem áður var fjármögnuð í gegnum samneysluna. Nú er það almenningur sem á að borga þannig að þeir ríku geti haldið áfram að éta sínar kökur í friði!




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×