Skoðun

Ungt fólk er auðlind

Katrín Jakobsdóttir skrifar
Heimurinn er stærri en Ísland. Í því felast tækifæri fyrir íslenskt samfélag en ungir Íslendingar geta nú sótt sér menntun, þekkingu og reynslu um allan heim. Þessu eigum við að fagna. Á sama tíma þurfum við að skapa samfélag hér á landi sem fólk vill gera að heimili sínu og auðga með reynslu sinni, þekkingu og menntun.

Í umræðum um stórfelldan niðurskurð á stuðningi við rannsóknir og nýsköpun, fjársvelti heilbrigðiskerfisins og niðurskurð í menntakerfinu hefur komið fram að veruleg hætta sé á atgervisskorti í íslensku samfélagi. Hugmyndir sem heyrast frá stjórnarheimilinu um að refsa þeim sem sækja sér menntun og starfsreynslu til annarra landa eða um að trú á olíufundi verði það sem laðar hingað ungt fólk bendir ekki til mikils skilnings á vandamálinu eða metnaðar til að byggja hér skapandi þekkingarsamfélag – sem skiptir þó mestu fyrir lífskjör hér á landi til framtíðar.

Líklega var óumflýjanlegt að ungt fólk leitaði út fyrir landsteinana fyrst eftir hrun. Sú þróun snerist hins vegar við enda ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar meðvituð um að hún væri óviðunandi til lengri tíma. Þess vegna var ráðist í fjárfestingaáætlun til að fjölga atvinnutækifærum og hjálpa fólki að hjálpa sér sjálft, lögum um fæðingarorlof var breytt og stefnan sett á lengingu orlofsins og sett fram frumvarp til nýrra laga um Lánasjóð íslenskra námsmanna. Þannig mætti lengi telja. Öll þessi mál miðuðu að því að bæta stöðu ungs fólks og fjölga tækifærum. Því miður virðist ný ríkisstjórn ætla að falla frá eða afturkalla þessi mál.

Ég hvet stjórnvöld til að efna til samráðs með öðrum stjórnmálaflokkum og fulltrúum ungs fólks til að ræða málefni ungs fólks og hvað það setur á oddinn þannig að íslenskt samfélag verði áfram gott og eftirsóknarvert. Við eigum að kappkosta að byggja hér öflugt samfélag, þekkingarsamfélag, jafnaðarsamfélag og skapandi samfélag og snúa þannig vörn í sókn. Þar eigum við í samkeppni við umheiminn en ekki hvert annað og því verðum við að ná saman um markmið sem skila árangri.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×