Handbolti

Frakkland í úrslitaleikinn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Viran Morros tekur hér Nikola Karabatic föstum tökum.
Viran Morros tekur hér Nikola Karabatic föstum tökum. Vísir/AFP
Frakkar tryggðu sér sæti í úrslitaleik EM í Danmörku með sigri á Spánverjum í fyrri undanúrslitaviðureign kvöldsins, 30-27.

Frakkar voru með yfirhöndina lengst af en Spánverjar héldu sér inni í leiknum og náðu að jafna metin, 25-25, þegar um fimm mínútur voru til leiksloka.

En Frakkar náðu yfirhöndinni á nýjan leik, ekki síst vegna frammistöðu Cyril Dumoulin í markinu. Þeir frönsku gengu á lagið og kláruðu leikinn með frábærum lokakafla. Dumolin varði níu skot eftir að hann kom inn á - alls 47 prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Valentin Porte átti stórleik í síðari hálfleik fyrir Frakka en þessi 23 ára skytta skoraði sjö mörk, þar af sex í síðari hálfleiknum. Luc Abalo var þó markahæstur Frakka með átta mörk.

Joan Canelas skoraði tíu mörk fyrir Spánverja og vantar nú aðeins tvö mörk til að jafna Guðjón Val Sigurðsson sem er markahæsti leikmaður á EM í Danmörku. Guðjón Valur hefur lokið leik en Canelas leikur um bronsið á sunnudag.

Staðan í hálfleik var 14-12, Spánverjum í vil en þeir skoruðu fjögur síðustu mörk hálfleiksins. Frakkar náðu undirtökunum á ný snemma í síðari hálfleik og héldu þeim allt til loka, þó svo að Spánverjar hafi aldrei gefist upp.

Danmörk og Króatía eigast við í síðari undanúrslitaviðureigninni klukkan 20.00.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×