Handbolti

Aron: Búnir að nýta liðið vel í mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins.
Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska landsliðsins. Vísir/Daníel
Landsliðsþjálfarinn Aron Kristjánsson var mjög ánægður eftir glæsilegan sigur á Pólverjum í leiknum um fimmta sætið á Evrópumótinu í Danmörku. Íslenska liðið tryggði sér sigurinn með mjög góðum seinni hálfleik.

„Það var virkilega sætt að vinna þennan leik. Við vorum að spila á mörgum óreyndari leikmönnum og þeir stóðu sig vel," sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari í viðtali við Einar Örn Jónsson í útsendingu í Sjónvarpsins.

Menn sem hafa ekki verið í lykilhlutverki á mótinu voru að spila vel í sigrinum á Pólverjum. Þetta eru strákar eins og Gunnar Steinn Jónsson, Aron Rafn Eðvarðsson, Stefán Rafn Sigurmannsson og fleiri. Einar Örn spurði Aron út í þá.

„Þetta var virkilega góð frammistaða hjá þeim. Mér finnst við búnir að nýta liðið vel í mótinu og menn hafa vaxið með aukinni ábyrgð. Það er virkilega gott upp á framhaldið því menn þurfa að spila til að fá aukna reynslu," sagði Aron.

„Fimmta sætið í þessari keppni miðað við öll þau vandamál sem við glímdum við fyrir mótið sé frábær niðurstaða," sagði Aron. Hvað er Aron ánægðastur með á mótinu?

„Ég er fyrst og fremst ánægður með einbeitinguna og framlagið frá strákunum alla keppnina. Menn eru búnir að leggja mikið á sig og líka í aðdraganda mótsins þar sem menn voru að vinna í sínum málum. Við náðum alltaf að bæta okkar leik, bæði fyrir móti og svo í mótinu," sagði Aron.

„Það detta mikilvægir leikmenn út hjá okkur eftir riðlakeppnina og svo Aron Pálmars þegar fór að líða á milliriðilinn. Þá er frábært að þessi yngri skuli stíga fram. Auðvitað fengum við á kjaftinn á móti Dönum en það var leikur sem skipti okkur ekki mestu máli. Það var aðalatriðið að vera með menn klára í leiknum í dag til að geta unnið hann og það tókst," sagði Aron.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×