Xi Jinping, forseti Kína, verður viðstaddur opnunarhátíð Vetrarólympíuleikanna í Sochi í Rússlandi þann 7. febrúar. Reuters greinir frá.
Samkvæmt tilkynningu frá utanríkisráðuneyti Kínverja verður Xi í Rússlandi sjötta til áttunda febrúar. Staðfestingin á mætingu þykir sterk stuðningsyfirlýsing til Vladimir Putín, forseta Rússlands, í ljósi þess að Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, og Joachim Gauck, forseti Þýskalands, hafa boðað forföll.
Putin og félagar í Rússlandi hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir ný lög sem takmarka réttindi samkynhneigðra í landinu. Fjölmargir hafa lýst yfir skoðun sinni á lögunum og látið ýmislegt flakka. Líkti grínistinn Stephen Fry forseta Rússlands meðal annars við Adolf Hitlereins og lesa má um hér.
Þetta verður í fyrsta skipti sem forseti Kína verður viðstaddur íþróttaviðburð af stærðargráðu sem þessari utan heimalandsins. Segir í tilkynningunni með mætingu sinni vilji Ki staðfesta þau traustu bönd sem séu á milli Kína og Rússlands.
Vetrarólympíuleikarnir í Sochi eru þeir 22. í röðinni. Þeir munu standa yfir frá 7.-23. febrúar og verða í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hér á Vísi.
Sport