Sérfræðingar Eykons Energy hafa afmarkað líklega olíulind á Drekasvæðinu sem þeir kalla Bergþóru. Staðfesta þarf með borunum að hún sé til staðar en stjórnarformaður Eykons segir að lindin sé talin mjög stór og geyma einn milljarð olíutunna. Á fundi sem Félag viðskiptafræðinga og hagfræðinga stóð fyrir á þriðjudag um tækifærin í olíuiðnaði skýrði stjórnarformaður Eykons, Heiðar Már Guðjónsson, frá því að sérfræðingar félagsins hefðu skilgreint stóra olíulind í lögsögu Íslands.
„Ef þetta er lind sem er af þessari stærðargráðu, einn milljarður tunna, þá er hún þess virði að fara á eftir henni vegna þess að hún væri mjög stór í alþjóðlegu tilliti og gæti gefið af sér mjög miklar tekjur,” sagði Heiðar Már í viðtali í fréttum Stöðvar 2.
Lindin hugsanlega hefur fengið vinnuheitið Bergþóra, eftir einni af þekktustu persónum Íslendingasagna. Hún er á sérleyfi undir forystu kanadíska félagsins Ithaca og gæti teigt sig yfir í lögsögu Noregs. Aðrir aðilar leyfisins eru Petoro og Kolvetni, dótturfélag Eykons.

Eykons-menn hafa áætlað hvað þessi eina lind gæti skilað ríkinu í skatttekjur. Yfir 20 ára tímabil milli 80 og 90 prósent af þjóðarframleiðslu Íslands, segir Heiðar Már. „En ég segi aftur: Við vitum ekki hvort olían er þarna. En ef þetta reynist rétt hjá okkur, þá gæti þetta orðið svona.”
Bergþóra gæti verið mun stærri.
„Erlendir aðilar sem við höfum verið að vinna með vilja meina að hún geti verið allt að þrír milljarðar tunna. Þá eru náttúrlega uppgripin enn meiri.”
Áætlanir sem þessar segir Heiðar ekki skot út í loftið heldur byggðar á rannsóknargögnum.
„Við teljum til að mynda að bæði kínverska ríkisolíufélagið og hið norska, sem hafa komið með okkur, þau kæmu ekki að þessu nema vegna þess að þau treysta þeirri vinnu sem liggur til grundvallar,” sagði stjórnarformaður Eykons.

Á fundinum fjallaði Gunnar Karl Guðmundsson um möguleika Íslendinga á Grænlandi en hann situr í stjórn grænlenska félagsins KNI, sem annast stóran hluta verslunar og olíuflutninga í landinu.
„Við verðum alltaf að átta okkur á því, þegar við komum að Grænlandi, að þeir verða að fá að ráða þessu á sínum eigin forsendum,” sagði Gunnar Karl.
Hann hvatti til þess að Íslendingar og Grænlendingar gerði með sér fríverslunarsamning.
„Við eigum bara að vera þarna, hlusta á þeirra þarfir, þeirra væntingar, og reyna að uppfylla þær.”