Sport

Þessi braut gæti drepið einhvern

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Bandaríkjamaðurinn Bode Miller, einn besti skíðakappi heims undanfarin ár, segir að brunbrekkan í Sotsjí sé stórhættuleg.

Miller er 36 ára gamall og hefur unnið fimm gull á Ólympíuleikum á ferlinum. Hann hefur æft í vikunni ásamt öðrum keppendum í bruni í Rosa Khutor-brekkunni en liðsfélagi hans, Marco Sullivan, var hársbreidd frá því að lenda í alvarlegu slysi í brautinni.

„Þessi brekka gæti drepið mann ef maður er ekki 100 prósent einbeittur,“ sagði Miller við fjölmiðla í morgun en alls náðu tíu keppendur ekki að klára æfingaferð sína.

Miller náði besta tímanum í þriðju og síðustu æfingunni í morgun og er því til alls líklegur í keppninni sjálfri sem fer fram í fyrramálið.

„Hún er stórhættuleg. Það eru beittar tennur alls staðar. Efsti hlutinn er mjög erfiður. Hraðinn er svo mikill og beygjurnar ósléttar að maður getur krækt í eitthvað hvar sem er.“

Miller náði 132,6 km/klst hraða í brautinni en keppnin hefst klukkan sjö í fyrramálið og verður í beinni útsendingu hér á Vísi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×