Sport

Ólympíudraumur Maríu úti

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
María Guðmundsdóttir verður 21 árs á árinu.
María Guðmundsdóttir verður 21 árs á árinu. Mynd/Skíðasamband Íslands
María Guðmundsdóttir meiddist illa á hné í stórsvigskeppni í Þýskalandi í dag. Hún missir af Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí af þeim sökum.

María hefur dvalið í Austurríki og Þýskalandi við æfingar og keppni undanfarnar vikur. Í morgun keppti hún í stórsvigi í Jenner í Þýskalandi en féll illa í fyrri umferðinni. Óttast er að María hafi skaddað liðbönd í hægra hné en skíðakonan gekkst undir frumrannsókn hjá læknum í Þýskalandi í dag.

María er á leið til Noregs þar sem hún býr ásamt fjölskyldu sinni í bænum Kongsberg í nágrenni Óslóar. Þar mun hún gangast undir frekari rannsóknir að því er greint er frá á heimasíðu Skíðasambands Íslands.

María ásamt Einari Kristni Kristgeirssyni, félaga sínum úr landsliðinu.Vísir/Vilhelm
María stefndi á að feta í fótspor systur sinnar Írisar sem keppti á Vetrarólympíuleikunum fyrir hönd Íslands í Vancouver fyrir fjórum árum.

„Við höfum rætt aðeins um þetta og hún hefur gefið mér ráð,“ sagði María í viðtali við Fréttablaðið á dögunum. Nú er ljóst að draumur Maríu er úti í bili en vonandi að hún fái bót meina sinna sem fyrst.

María er uppalin á Akureyri en flutti til Noregs fyrir fimm árum ásamt fjölskyldu sinni svo hún og systkini hennar gætu stundað íþrótt sína við betri aðstæður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×