Erkifjendurnir á ísnum, Bandaríkin og Kanada, unnu í sínum viðureignum í fjórðungsúrslitum íshokkíkeppninnar á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí.
Bandaríkin vann Tékkland nokkuð örugglega í kvöld, 5-1, með mörkum þeirra James Van Riemsdyk, Dustin Brown, David Backes, Zach Parise og Phil Kessel.
Á sama tíma mættu Ólympíumeistarar Kanada liði Lettlands sem kom öllum á óvart með því að vinna Sviss í gær. Lettarnir stóðu lengi vel í meisturunum sem unnu þó að lokum 2-1 sigur.
Shea Weber skoraði sigurmark Kanada sjö mínútum fyrir leikslok með þrumuskoti af löngu færi.
Þess má geta að Kanada og Bandaríkin áttust við í úrslitaleiknum á leikunum í Vancouver fyrir fjórum árum síðan. Þá höfðu heimamenn betur sem fyrr segir.
Í hinni undanúrslitaviðureigninni eigast við Svíþjóð og Finnland en undanúrslitin fara fram á föstudaginn.
