Sport

Drottnun Domrachevu heldur áfram - þriðju gullverðlaunin

Darja Domracheva er í sérflokki í skíðaskotfimi kvenna í Sotsjí.
Darja Domracheva er í sérflokki í skíðaskotfimi kvenna í Sotsjí. Vísir/Getty
Darja Domracheva varð í dag fyrsti íþróttamaðurinn til að vinna þrenn gullverðlaun á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí.

Hvít-Rússinn vann yfirburðarsigur í 12,5 kílómetra skíðaskotfimi kvenna en hún kom í mark ríflega 20 sekúndum á undan næstu konu. Sigurtími hennar var 35:25,6 mínútur.

Darja var í forystu nánast frá upphafi til enda en keppendur eru ræstir af stað samtímis í 12,5km göngunni.

Hún brenndi aðeins af einu skoti en það var á síðustu skotstöðunni. Gabriela Soukalova frá Tékklandi hefði getað hleypt meiri spennu í lokasprettinn en hún klúðraði einnig sínu fyrsta skoti á síðustu skotstöðunni og þurfti að taka út refsihring eins og Domracheva.

Soukalova náði engu að síður í silfur sem eru hennar fyrstu verðlaun á Ólympíuleikum og bronsið fékk Tiril Eckhoff frá Noregi. Hún tók fram úr Evi Sachenbacher-Stehle þegar rétt rúmur kílómetri var eftir.

Darja Domracheva hefur lokið keppni í Sotsjí en fer heim með þrenn gullverðlaun. Hún bar sigur úr býtum í 10, 12,5 og 15 kílómetra göngunum og lenti svo í níunda sæti í 7,5km sprettgöngunni.

Domracheva hleður riffilinn í dag.Vísir/Getty
Domracheva kemur fyrst í mark.Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×