Handbolti

Ólafi bauðst að spila með Björgvin og Arnóri

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Gústafsson heldur á vit nýrra ævintýra í sumar.
Ólafur Gústafsson heldur á vit nýrra ævintýra í sumar. Vísir/Getty
„Þetta kláraðist í rauninni í morgun en ég skrifaði undir samninginn við Álaborg um helgina,“ segir Ólafur Gústafsson, landsliðsmaður í handbolta, við Vísi.

Hafnfirðingurinn hávaxni yfirgefur stórlið Flensburg í Þýskalandi eftir tímabilið og gengur í raðir Álaborgar sem er ríkjandi meistari þar í landi.

Fleiri lið voru á eftir Ólafi en honum bauðst að spila með tveimur samherjum sínum úr landsliðinu, Arnóri Þór Gunnarssyni og markverðinum Björgvini Páli Gústavssyni. Álaborg heillaði þó meira.

„Ég tók ákvörðun um að setja stefnuna á Álaborg í raun fyrir tveimur vikum. Það var samt annað í boði eins og samningur hjá Bergischer hér í Þýskalandi og svo átti ég annað ár eftir af samningum við Flensburg. En ég ákvað á endanum að semja við Álaborg,“ segir Ólafur sem sat pollrólegur við morgunverðarborðið heima hjá sér í Flensburg þegar Vísir heyrði í honum.

Ólafur í háloftunum með Flensburg.Vísir/Getty
Ætlað stórt hlutverk

Hann heimsótti Álaborg um helgina og ræddi þar við þjálfarann og forráðamenn liðsins. Það verður ekki annað sagt en hann hafi heillast af því sem þar var í boði.

„Ég fór á fund með þjálfaranum og framkvæmdastjóranum. Mér leist sérstaklega vel á það hlutverk sem þjálfarinn ætlar mér. Hann sér mig sem fyrsta mann í mína stöðu og mér er ætlað stórt hlutverk bæði í vörn og sókn,“ segir Ólafur.

„Þetta er félag sem er ríkjandi meistari og í 3. sæti núna. Það ætlar sér að vera á meðal þriggja bestu á næstu árum. Það spilar í þessari flottu Gigantium-höll sem landsliðið spilaði í á EM. Öll aðstaða er frábær og bærinn bara mjög fínn.“

Ólafur með Domagoj Duvnjak í tangarhaldi.Vísir/Getty
Vildi sjálfur klára tímabilið í Þýskalandi

Dönsku meistararnir vildu fá Ólaf til sín strax í janúar en Flensburg tók fyrir það. Það vill ekki sleppa Hafnfirðingnum fyrr en í lok tímabilsins. Sjálfur er Ólafur ánægður með það.

„Ég vildi alltaf klára tímabilið hér. Það er mikið eftir af leiktíðinni og ég tel mig enn geta gert mikið fyrir þetta lið á endasprettinum. Það er mikið um meiðsli hjá liðinu en sjálfur er ég reyndar meiddur núna þannig ég geri ekki mikið á meðan,“ segir hann og hlær við.

Frá Flensburg til ÁlaborgarVísir/Getty
Reynslubankinn stútfullur eftir góða dvöl í Flensburg

Ólafur hefur lítið fengið að spila hjá Flensburg á tímabilinu en hann grætur það ekki heldur lítur á síðustu mánuði sem öflugt innlegg í reynslubankann.

„Þetta er náttúrlega búið að vera erfitt undanfarið. Fyrst þegar ég kom til liðsins spilaði ég mikið og það gekk vel. En nú spilaði ég lítið fyrir áramót og það hefur verið erfitt. En ég hef lært mikið. Bæði þegar ég var að spila og nú þegar ég fæ minna að spila. Þetta er í heildina bara búinn að vera mjög góður tími en ég hlakka mikið til nýrrar áskorunar í Álaborg,“ segir Ólafur Gústafsson.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×