Sport

Þokan áfram að stríða mönnum á ÓL í Sotsjí

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Getty
Keppni í 15 km skíðaskotfimi karla á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí var aftur frestað í morgun en keppnin sem átti fyrst að fara fram í gærdag verður nú ekki í fyrsta lagi fyrr en í hádeginu.

Það er mikil þoka sem er að stríða mönnum í Sotsjí. Vegna hennar varð að fresta keppni í skíðaskotfiminni í gær og hún átti að hefjast snemma í dag. Þokan lifir hinsvegar enn góðu lífi.

Norðmaðurinn Ole Einar Björndalen þarf því að bíða aðeins lengur eftir síðustu einstaklingskeppni sinni á Ólympíuleikum en hann á þar möguleika á að bæta met sitt og landa hans Bjørn Dæhlie yfir flest verðlaun á Vetrarólympíuleikum.

15 km skíðaskotfimi karla hefur nú verið sett á klukkan 11.30 að íslenskum tíma eða klukkan hálf fjögur að rússneskum tíma.

Vísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×