Sport

"Náum ykkur fyrr eða síðar"

Róbert Jóhannsson skrifar
Strangt lyfjaeftirlit er með keppendum í Sochi
Strangt lyfjaeftirlit er með keppendum í Sochi Vísir/Getty
Alþjóða Ólympíunefndin, IOC, hefur sent þau skilaboð til íþróttamanna sem mögulega eru að nota ólögleg lyf að ef þeir nái þeim ekki núna, þá muni það gerast síðar.

IOC mun taka um það bil 2.500 sýni af keppendum á Vetrarólympíuleikunum í Sochi en nú er það svo að færri þeirra verða tekin eftir að keppendur hafa lokið keppni en fleiri áður en þeir fara af stað til þess að koma keppendum frekar að óvörum.

Þá ætlar IOC að afla sér upplýsinga um keppendur sem grunur leikur á að séu að nýta sér ólögleg lyf og herja sérstaklega á þá.

Nýjar reglur kveða á um að geyma megi rannsóknargögn í allt að tíu ár. Það þýðir að IOC getur geymt þvagsýni og rannsakað þau síðar þegar ný tækni lítur dagsins ljós.

"Skilaboðin til íþróttamanna eru þau að ef þú ert að svindla og við komumst ekki að því núna, þá getur verið að við komumst að því seinna. En við munum að öllum líkindum komast að því fyrr en síðar," sagði Arne Ljungqvist, formaður lyfjanefndar IOC.

Richard Budgett, stjórnandi lyfjaeftirlits IOC, segist litlar áhyggjur hafa af því að Ólympíunefndin sjái ekki um rannsóknirnar sjálfar heldur séu þær í góðum höndum innan vébanda lyfjaeftirlits Rússa, Rusada.

Hann segist ekki hafa neinar áhyggjur af öryggi sýnanna í höndum Rusada og að rannsóknarstofan sé fullgild stofnun innan Alþjóða lyfjaeftirlitsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×