Körfubolti

Snæfell endaði sigurgöngu ÍR-inga og varði áttunda sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sigurður Þorvaldsson skoraði 26 stig fyrir Snæfell á móti sínu gamla félagi.
Sigurður Þorvaldsson skoraði 26 stig fyrir Snæfell á móti sínu gamla félagi. Vísir/Stefán
Snæfellingar vörðu áttunda og síðasta sæti inn í úrslitakeppnina með því að vinna fimmtán stiga sigur á ÍR, 94-79, í Dominos-deild karla í körfubolta.

Liðin voru bæði með tólf stig í 8. og 9. sæti deildarinnar en Hólmarar voru ofar eftir stórsigur í fyrri leik liðanna. ÍR-ingar voru búnir að vinna þrjá deildarleiki í röð og alls fimm leiki í röð í öllum keppnum en gengu á vegg í kvöld.

Sigur Snæfells var nokkuð öruggur en ÍR-ingar komu sterkir til baka í þriðja leikhlutanum en tókst ekki að vinna upp stórt forskot Snæfellsliðsins sem kláraði síðan leikinn með því að vinna síðustu 70 sekúndurnar 7-0.

Snæfellsliðið byrjaði betur, komst í 9-4 og var 13-9 yfir þegar fyrsti leikhlutinn var hálfnaður. ÍR komst reyndar í 14-13 en Snæfell svaraði með sjö stigum í röð og var síðan átta stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 23-15. Travis Cohn skoraði 10 stig fyrir Snæfell í fyrsta leikhlutanum.

Snæfellingar héldu áfram að bæta við forystuna í öðrum leikhlutanum sem liðið vann 27-13 og voru Hólmarar því komnir með 22 stiga forskot í hálfleik, 50-28. Travis Cohn (15 stig) og Sigurður Þorvaldsson (14 stig) voru allt í öllu í sóknarleik liðsins í fyrri hálfleiknum.

ÍR-ingar fengu greinilega góða ræðu frá Örvari Þór Kristjánssyni í hálfleik því þeir komu sér aftur inn í leikinn með því að vinna þriðja leikhlutann 34-20.

ÍR-liðið náði að minnka muninn niður í þrjú stig í upphafi fjórða leikhlutans en Snæfellsliðið hélt út og tryggði sér mikilvægan 15 stiga sigur í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni.



Snæfell-ÍR 94-79 (23-15, 27-13, 20-34, 24-17)

Snæfell: Travis Cohn III 28/8 fráköst, Sigurður Á. Þorvaldsson 26/8 fráköst, Jón Ólafur Jónsson 14/7 fráköst, Pálmi Freyr Sigurgeirsson 9/5 fráköst, Kristján Pétur Andrésson 7/5 fráköst, Sveinn Arnar Davíðsson 4/7 fráköst, Stefán Karel Torfason 4/4 fráköst, Finnur Atli Magnússon 2/4 fráköst.

ÍR: Sveinbjörn Claessen 20/5 stoðsendingar, Hjalti Friðriksson 16/8 fráköst, Matthías Orri Sigurðarson 15/5 fráköst/5 stoðsendingar, Nigel Moore 14/10 fráköst, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 14.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×