Það eru ekki bara íþróttamenn sem þurfa að draga sig úr keppni á Ólympíuleikum vegna meiðsla. Fréttamenn geta líka orðið fyrir meiðslum.
Einn þekktasti sjónvarpsmaður Bandaríkjanna, Bob Costas, hefur verið andlit NBC á Ólympíuleikunum síðan 1998 en nú þarf hann að draga sig í hlé vegna "meiðsla".
Costas er með mjög slæma augnsýkingu og getur af þeim sökum ekki komið fram í sjónvarpinu næstu daga. Hann er búinn að koma fram í 157 Ólympíuþáttum hjá NBC í röð.
Annar góðkunnur sjónvarpsmaður NBC, Matt Lauer, mun leysa Costas af meðan hann jafnar sig.
