Sport

Höfl-Riesch varði titilinn í alpatvíkeppni | Myndband

Maria Höfl-Riesch, 29 ára Þjóðverji, varði Ólympíumeistaratitil sinn í alpatvíkeppni kvenna á vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í dag.

Höfl-Riesch var í fimmta sæti eftir brunið í morgun en svigið er hennar sérgrein og straujaði hún niður brekkuna á 50,90 sekúndum sem var langbesti tími allra í svighlutanum.

Þjóðverjinn fór brunið og svigið samanlagt á 2:34,62 mínútum en hin austurríska Nicole Hosp varð önnur á samanlögðum tíma 2:35,02. Hún var áttunda eftir brunið þannig vel gert hjá henni að ná í silfur.

Það var svo bandaríska stúlkan Julia Mancuso sem fékk bronsið en hún leiddi keppnina eftir brunið í morgun. Svigið fór hún á 52,47 sekúndum sem var 13. besti tíminn en það dugði engu að síður til verðlauna í dag. Samanlagður tími hennar var 2:35,15 mínútur og fagnaði hún árangrinum gífurlega.

Slóveninn Tina Maze, heimsmeistari í alpatvíkeppni kvenna, þurfti að sætta sig við fjórða sætið að þessu sinni.

Vetrarólympíuleikarnir halda áfram í beinni hér á Vísi í dag en 12,5km skíðaskotfimi karla hefst klukkan 14.50.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×