Þetta er vanalega ein mest spennandi greinin á leikunum en allir keppendur eru ræstir samtímis og er notast við frjálsa aðferð í göngunni.
Björgen kom í mark á 1:11:05,2 klukkustundum og var 2,6 sekúndum á undan löndu sinni Theresu Johaug sem fékk silfrið.
Norðmenn gátu svo heldur betur fagnað í dag því þeir fengu einnig bronsverðlaunin. Kristin Störmer Steira kom í mark 23,6 sekúndum á eftir Björgen og fagnaði sínum fyrstu verðlaunum á Ólympíuleikum.
Marit Björgen jafnaði með sigrinum árangur Hvít-Rússans Dörju Domrachevu á leikunum með því að vinna sitt þriðja gull. Domracheva vann þrenn gullverðlaun í skíðaskotfimi.
Í heildina eru þetta sjöttu gullverðlaun Björgen á Ólympíuleikum en hún vann einnig þrjú slík í Vancouver fyrir fjórum árum.

