Sport

Þriðja gullið hjá Björgen og þrefalt hjá Noregi | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Marit Björgen frá Noregi vann sín þriðju gullverðlaun á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í dag þegar hún kom fyrst í mark í 30km skíðagöngu.

Þetta er vanalega ein mest spennandi greinin á leikunum en allir keppendur eru ræstir samtímis og er notast við frjálsa aðferð í göngunni.

Björgen kom í mark á 1:11:05,2 klukkustundum og var 2,6 sekúndum á undan löndu sinni Theresu Johaug sem fékk silfrið.

Norðmenn gátu svo heldur betur fagnað í dag því þeir fengu einnig bronsverðlaunin. Kristin Störmer Steira kom í mark 23,6 sekúndum á eftir Björgen og fagnaði sínum fyrstu verðlaunum á Ólympíuleikum.

Marit Björgen jafnaði með sigrinum árangur Hvít-Rússans Dörju Domrachevu á leikunum með því að vinna sitt þriðja gull. Domracheva vann þrenn gullverðlaun í skíðaskotfimi.

Í heildina eru þetta sjöttu gullverðlaun Björgen á Ólympíuleikum en hún vann einnig þrjú slík í Vancouver fyrir fjórum árum.

Björgen kemur fyrst í mark.Vísir/Getty
Marit Björgen.Vísir/EPA

Tengdar fréttir

Bein útsending frá ÓL 2014 | Dagur 15

Vísir er með beina útsendingu frá keppni á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí í Rússlandi en fimmtándi keppnisdagur leikanna er í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×