Sport

Tvöfaldur Ólympíumeistari féll á lyfjaprófi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Tveir keppendur á Vetrarólympíuleikunum í Sotsjí féllu á lyfjaprófum í dag.

Hin þýska Evi Sachenbacher-Stehle, sem keppir í skíðaskotfimi, og bobsleðakeppandinn Williams Frullani frá Ítalíu hafa bæði verið send heim eftir að svokölluð A- og B-sýni reyndust jákvæð.

Sachenbacher-Stehle keppti upphaflega í skíðagöngu og vann gull á leikunum í Salt Lake City árið 2002 og svo aftur í Vancouver fyrir fjórum árum síðan. Hún á einnig þrenn silfurverðlaun í skíðagöngu.

Hún skipti svo yfir í skíðaskotfimi fyrir tveimur árum og hafnaði í fjórða sæti í bæði 12,5 km göngu á mánudaginn og svo boðskíðaskotfimi blandaðra kynja með þýska keppnisliðinu.

„Þetta er sú allra versta martröð sem hægt er að ímynda sér,“ sagði hún við fjölmiðla í dag. „Ég skil ekki hvernig þetta gat gerst.“

Frullani, sem starfar reyndar sem lögreglumaður í heimalandinu, átti að keppa með ítalska bobsleðaliðinu á sunnudag en hefur verið sendur aftur heim.

Bæði féllu á lyfjaprófi fyrir að neyta efnisins methylhexanamin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×