Körfubolti

Ívar: Ekki boðleg aðstaða hérna á Ásvöllum

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ívar Ásgrímsson vill að bærinn hjálpi félaginu.
Ívar Ásgrímsson vill að bærinn hjálpi félaginu. Vísir/Valli
Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, horfði upp á fjögurra leikja sigurgöngu liðsins í Dominos-deild karla í körfubolta enda í kvöld þegar liðið tapaði á heimavelli, 80-66, fyrir Þór Þorlákshöfn.

Með sigrinum jöfnuðu Þórsarar Hauka að stigum í baráttunni um fimmta sæti deildarinnar en Haukar halda því þó á betri árangri í innbyrðis viðureignum.

Ívari var ekki skemmt í leikslok og kvartaði sáran undan aðstöðunni á Ásvöllum í samtali við Anton Inga Leifsson, blaðamann Vísis á vellinum.

„Við erum bara í vandræðum hérna á Ásvöllum. Við missum þrjár æfingar í þessari viku og ef við ætlum að vera í úrvalsdeildinni og gera einhverja hluti þá er þetta ekki boðleg aðstaða fyrir okkur hérna á Ásvöllum,“ sagði hann.

„Það eru þrír leikir í viku hjá okkur því við erum eina liðið með Val sem er með meistaraflokka karla og kvenna í handbolta og körfubolta í efstu deild. Það eru stöðugir leikir og við höfum ekkert annað íþróttahús til að fara í. Við missum og missum æfingar trekk í trekk og það er að hafa áhrif á okkur.“

Aðspurður hvort hann væri að kalla eftir meiri stuðningi frá bænum sagði Ívar að svo væri.

„Alveg hiklaust. Við erum búnir að fara fram á að fá nýtt körfuboltahús sem á að vera tilbúið næsta vetur. Það á að taka það fyrir í bæjarstjórninni í vikunni en miðað við hvernig þetta er í dag  þá er þetta ekki boðlegt!“ sagði Ívar Ásgrímsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×