Körfubolti

Ívar: Njótum engrar virðingar hjá dómurum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ívar rífst við Eggert dómara í kvöld.
Ívar rífst við Eggert dómara í kvöld. vísir/daníel
„Mér fannst við nær sigrinum í síðasta leik en þessum. Við gerðum mikið af mistökum í kvöld en baráttan var þó til fyrirmyndar,“ sagði Ívar Ásgrímsson, þjálfari Hauka, eftir tapið í kvöld.

Njarðvík skoraði níu stig í röð utan þriggja stiga línunnar á tæpri mínútu um miðjan þriðja leikhluta. Ívar sagði að sá kafli hefði reynst Haukum dýrkeyptur.

„Við gerðum mjög mikið af mistökum þá - tókum rangar ákvarðanir og slæm skot í stað þess að spila bara okkar leik. Það kostaði okkur sjálfsagt leikinn. Af þessu þurfum við að læra því við þurfum að vera skynsamir.“

Hann kvartaði líka undan dómgæslunni í kvöld, sér í lagi þegar kom að Terrence Watson. „Þeir brutu á honum allan leikinn en hann fékk bara fimm villur dæmdar á sig. Þannig er þetta leik eftir leik og það virðist sem að við njótum engrar virðingar hjá dómurunum. Maður skilur þetta bara ekki,“ sagði Ívar.

„Þegar við bendum á þetta þá segja þeir að það sé ekki verið að brjóta á honum. Það er í raun óskiljanlegt hvernig dómarar starfa í dag og menn virðast kvarta eftir hvern einasta leik. Þeir hafa bara ekki ráðið við þessa leiki, því miður.“

Emil Barja byrjaði frábærlega fyrir Hauka en lenti í villuvandræðum strax í fyrsta leikhluta. Það kostaði hann dýrmætar mínútur í kvöld.

„Hann tók einfaldlega rangar ákvarðanir. Tvær af þessum villum voru mjög vondar af hans hálfu. Við höfum ekki efni á að missa hann á bekkinn í einn og hálfan leikhluta. Það er dýrt í seríu sem þessari.“

„En allir sem komu inn gerðu sitt besta. Ég er því sáttur við strákana - þeir þurfa bara að vera aðeins skynsamari. Þetta er nefnilega ekki búið. Ef við vinnum á föstudag eigum við annan heimaleik og þá er allt opið aftur.“

Dómarar kvöldsins.vísir/daníel

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×