Körfubolti

Nánast öruggt að ég spili ekkert meira

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Þorleifur Ólafsson í leik með Grindavík.
Þorleifur Ólafsson í leik með Grindavík. Vísir/Daníel
Þorleifur Ólafsson, fyrirliði Grindavíkur, hittir lækni síðar í dag en óttast er að hann sé með slitið krossband í hné.

„Þetta hefur ekki verið staðfest enn en það eru allar líkur á að krossbandið sé farið,“ sagði Þorleifur í samtali við Vísi í dag.

„Það er að minnsta kosti alvarlega skaddað og því er nánast öruggt að ég spili ekkert meira með liðinu þetta tímabilið,“ sagði fyrirliðinn en Þorleifur meiddist í leik Grindavíkur og Þórs í úrslitakeppni Domino's-deildar karla í gær.

Þór vann leikinn og jafnaði þar með metin í rimmu liðanna í 8-liða úrslitum, 1-1.

„Ég var í vörn og steig aðeins til hliðar í vinstri fótinn þegar ég fékk smá högg frá sóknarmanninum. Það var ekki neitt til að tala um en við þetta setti ég allan þungann á fótinn og við það fór hnéð,“ sagði Þorleifur sem hefur aldrei orðið fyrir alvarlegum hnémeiðslum áður.

„Ég hef þó lengi verið að glíma við bakmeiðsli og annað slíkt. Þessi hvíld sem ég fæ nú verður vonandi til þess að ég nái mér af þeim meiðslum líka og að ég geti komið 100 prósent til baka. Ég hef verið um 70 prósent í ansi langan tíma,“ sagði Þorleifur.

„En þetta er auðvitað hundleiðinleg tímasetning og vont að missa af nánast allri úrslitakeppninni.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×