Körfubolti

Óttast að Þorleifur hafi slitið krossband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Þorleifur Ólafsson gæti hafa lokið keppni.
Þorleifur Ólafsson gæti hafa lokið keppni. Vísir/Valli
Þátttöku Þorleifs Ólafssonar, leikmanns Grindavíkur, í úrslitakeppninni í Dominos-deild karla í körfubolta gæti verið lokið en hann meiddist illa í leik gegn Þór Þorlákshöfn.

Þorleifur fór af velli meiddur strax í fyrsta leikhluta og tók ekki frekari þátt í leiknum. SverrirÞór Sverrisson, þjálfari Grindavíkur, tjáði blaðamanni Vísis á vellinum að óttast væri að hann hefði slitið krossband í hné. Ef meiðslin eru svo alvarleg er tímabilið á enda hjá Þorleifi.

Þorleifur lét meiðslin þó ekki aftra sér í að segja dómurunum til syndanna í leikslok.

„Það fer þarna eitthvað á milli þeirra, Björgvins (Dómara) og Lalla (Þorleifs). Ég heyrði það ekki nákvæmlega en sá að hann fékk brottrekstrarvillu sem skiptir þó kannski ekki öllu máli enda líta meiðslin hans ansi alvarlega út.“ sagði Sverrir.

Grindvíkingar voru allir sem einn afar ósáttir við frammistöðu dómaratríósins í kvöld.

„Þetta var bara hálfgerður skrípaleikur hjá þeim, endalausar villur og mér fannst þetta bara detta út í vitleysu. Mér sýndist Þórsararnir ekki heldur vera sáttir við þá. En staðan er bara 1-1 í þessu einvígi þó það hafi mikið gengið á. Nú þurfum við bara að huga að næsta leik á fimmtudaginn,“ sagði Sverrir Þór Sverrisson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×