Handbolti

Ná liðin að jafna sig eftir maraþonleikinn?

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Ekki gengur alltaf allt upp
Ekki gengur alltaf allt upp vísir/daníel
Stjarnan tekur á móti Val í þriðja leik liðanna í úrslitum Olís deildar kvenna í handbolta í dag klukkan 16. Staðan er jöfn í einvíginu 1-1 eftir tvo jafna og spennandi leiki.

Stjarnan náði að landa sigri í fyrsta leiknum eftir að Valur hafði unnið upp gott forskot liðsins þegar skammt var eftir. Annar leikurinn var ennþá jafnari og þurfti Valur tvær framlengingar til að knýja fram sigur.

Mikil orka fór í leikinn á föstudaginn og voru lykilmenn í báðum liðum örþreyttir í leikslok. Liðin fengu aðeins einn dag til að jafna sig og því munu úrslitin í dag ekki síst ráðast á því hvort liðið nær betur að jafna sig fyrir leikinn.

Hvorugt liðið er með þá breidd sem þau komu inn í mótið með því lykilmenn vantar í bæði lið vegna meiðsla. Þess vegna hafa margir leikmenn í báðum liðum leikið fleiri mínútur en hollt getur talist á slíku hraðmóti sem úrslitarimman er. Því getur framlag leikmanna af varamannabekkjum liðanna ráða miklu um úrslit leiksins í dag.

Tveggja marka munur var á liðunum þegar flautað var til leiksloka í tveimur fyrstu leikjunum og líklegt að spennan muni halda áfram að einkenna einvígið þessa tveggja sterku varnarliða.

Boltavakt Vísis verður með beina lýsingu frá leiknum sem hefst klukkan 16 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×