Skoðun

Komdu í kaffi og ég segi þér frá fátækum

Katla Hólm Vilbergs Þórhildardóttir skrifar
Í umfjöllun Fréttablaðsins um velferðarmál mánudaginn 26. maí er haft eftir Degi B. Eggertssyni að ekki sé eðlilegt að námsmenn geti rölt inn á hverfamiðstöð og fengið fjárhagsaðstoð yfir sumarið í stað þess að fá sér vinnu og að það beri að setja skilyrði fyrir fjárhagsaðstoð í Reykjavík.

Ummæli Dags bera vitni um fáfræði á þessu sviði í besta falli, í því versta eru þetta hreinir fordómar í garð þeirra sem þurfa fjárhagsaðstoð frá sveitarfélagi. Það er ekki hægt að rölta inn á hverfamiðstöð og einfaldlega fá fjárhagsaðstoð og það eru skilyrði fyrir slíkri aðstoð.

Til að byrja með þurfa framhaldskólanemar sem að fá skólastyrk að skila vissum árangri til að fá styrk frá sveitarfélaginu, þeir nemar sem fá fjárhagsaðstoð yfir sumartímann þurfa að sinna og sýna fram á vinnuleit, nemar sem neita vinnu fá ekki borgaða framfærslu. Ef þetta eru ekki skilyrði þætti mér fróðlegt að heyra hvað flokkast sem skilyrði. Háskólanemar og aðrir nemar sem eru í lánshæfu námi fá enga fjárhagsaðstoð og þá skiptir ekki máli hvort að einstaklingurinn sé lánshæfur að mati LÍN eða bankanna.

Efla þarf fólk sem er ekki á vinnumarkaði með það fyrir augum að styrkja sjálfsálit, lífsgleði og virkni einstaklinga, ekki ber að steypa alla þá sem leita hjálpar sveitarfélagsins í sama mót eða einfaldlega líta á fólk sem tölur á blaði og byrði á samfélaginu. Leita þarf fjölbreyttari leiða til að virkja þá sem af fjölmörgum mismunandi ástæðum neyðast til að leita hjálpar sveitarfélagsins.

Þú þekkir mig ekki, Dagur, en útlit er fyrir að þú verðir borgarstjórinn minn og því bíð ég þig velkomin í kaffibolla við tækifæri og ég skal með glöðu geði upplýsa þig um raunveruleika fátæks fólks í Reykjavík.




Skoðun

Sjá meira


×