Handbolti

Aron: Gott að fá Alexander aftur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alexander á landsliðsæfingu fyrr í vetur.
Alexander á landsliðsæfingu fyrr í vetur. Vísir/Daníel
Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari, var ánægður með fimm marka sigur sinna manna á Portúgal á Ísafirði í dag.

Strákarnir okkar unnu fimm marka sigur, 33-28, í fyrsta æfingaleik liðanna af þremur en hann fór fram á Ísafirði.

„Þetta var fínn sigur. Við vorum fjórum mörkum yfir eftir fyrri hálfleikinn en var refsað fyrir að klikka á nokkrum dauðafærum í þeim síðari. En við náðum að klára leikinn með fimm marka mun sem var gott,“ sagði Aron í samtali við Vísi í dag.

Nokkra lykilmenn vantar í liðið og fengu því aðrir tækifæri. Aron segir að enn fleiri munu fá að spila í leik liðanna í Mosfellsbæ á morgun. „Þetta eru þrír leikir og við þurfum að líta á heildina í því tilliti. En þeir strákar fá sénsinn á morgun.“

„Það var þó mjög gott að fá Alexander [Petersson] aftur í liðið og hann spilaði mikið í dag,“ bætti Aron við.

Hann hrósaði liði Portúgals og segir það góðan undirbúning að mæta liðinu fyrir rimmu Íslands gegn Bosníu í undankeppni HM 2015. „Þeir eru með mjög fínt lið og að koma upp með mjög góða handboltamenn. Bestu liðin hafa verið að ná góðum árangri í Evrópukeppninni og margir góðir ungir handboltamenn að koma upp. Það er fín breidd í þessu liði.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×