Körfubolti

Craion búinn að semja við KR

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Craion fer úr bláa búningnum í sumar og í þann röndótta.
Craion fer úr bláa búningnum í sumar og í þann röndótta. vísir/daníel
Íslandsmeistarar KR fengu heldur betur góðan liðsstyrk í dag er Bandaríkjamaðurinn Michael Craion skrifaði undir samning við félagið.

Craion hefur farið á kostum í liði Keflavíkur síðustu tímabil og er með betri Könum sem hafa spilað hér á landi.

„Samningaviðræður gengu mjög vel og við erum hæstánægðir með að fá hann. Hann var líka spenntur fyrir því að koma í KR og hjálpa félaginu að ná árangri," segir Böðvar Guðjónsson, varaformaður körfuknattleiksdeildar KR, við Vísi en var ekki barist um leikmanninn?

„Miðað við gæði leikmannsins þá má gera ráð fyrir því að fleiri félög hafi verið að reyna við hann. Við fundum samt ekki fyrir öðru strax frá byrjun annað en að hann vildi vera hjá okkur. Hann þekkir vel til félagsins eftir að hafa spilað hér á landi og veit fyrir hvað við stöndum."

KR-ingar misstu auðvitað Martin Hermannsson og þó svo Craion spili ekki sömu stöðu þá er hann mikill skorari.

„Við erum fá miklu meiri skorara en Watt var í fyrra. Við þurfum á því að halda þar sem Martin er farinn. Hann býr líka mikið til og það er styrkur að fá mann sem þekkir íslenska boltann vel.

„Við erum með frábært lið rétt eins og í fyrra. Við erum enn með Pavel, Brynjar Þór, Darra og Helga Má. Svo verður Magni líklega áfram og við vonumst til þess að endurheimta Finn Atla Magnússon líka til okkar.

„Svo erum við með unga og flotta stráka sem eru árinu eldri. Ég geri ráð fyrir því að þeir séu að lyfta eins og villidýr í sumar og mæti vel kjötaðir til leiks. Við erum stoltir af okkar strákum og að tefla fram liði með alvöru KR-ingum," segir Böðvar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×