Handbolti

Haukar unnu Hafnarfjarðarmótið

Anton Ingi Leifsson skrifar
Adam Haukur spilaði vel í mótinu.
Adam Haukur spilaði vel í mótinu. Vísir/Daníel
Haukar unnu Hafnarfjarðarmótið í handbolta, en liðið sigraði FH með sex mörkum í úrslitaleik mótsins. Leikið var í Strandgötunni í Hafnarfirði.

Árni Steinn Steinþórsson lék á alls oddi í liði Hauka, en hann skoraði átta mörk. Haukarnir leiddu frá fyrstu mínútu og voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 12-7. Lokatölur urðu svo 24-18.

Eins og fyrr segir var Árni Steinn markahæstur hjá Haukum og næstur kom Adam Haukur Baumruk með sex mörk. Ásbjörn Friðriksson var í sérflokki hjá FH og skoraði hann níu mörk.

Í hinum leik dagsins í Hafnarfjarðarmótinu vann Akureyri Íslandsmeistarana í ÍBV eftir ótrúlegan síðari hálfleik. ÍBV var níu mörkum yfir í hálfleik, 18-9, en allt fór í baklás í síðari hálfleik og vann Akureyri leikinn, 27-28.

Sigþór Heimisson skoraði sjö mörk fyrir Akureyraliðið og Heiðar Aðalsteinsson og Jón Sigurðsson skoruðu fimm mörk. Theodór Sigurbjörnsson skoraði sjö mörk fyrir ÍBV og Guðni Ingvarsson sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×