Körfubolti

Ómar og Ólafur tóku saman 36 fráköst í sigri á Skallagrími

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Ólafsson.
Ólafur Ólafsson. Vísir/Ernir
Ómar Sævarsson og Ólafur Ólafsson voru öflugir í fráköstunum þegar Grindvíkingar unnu 31 stigs sigur á Skallagrími, 106-75, í Röstinni í Grindavík í 2. umferð Dominos-deildar karla í körfubolta.

Ómar var með 19 fráköst auk 8 stig og Ólafur skoraði 18 stig og tók 17 fráköst. Þeir félagar voru því með 36 fráköst saman  en gestirnir úr Borgarnesi tóku samanlagt 39 fráköst í leiknum.

Grindvíkingar gerðu þó ekki út um leikinn fyrr en í lokaleikhlutanum sem liðið vann 37-18 en Grindavíkurliðið var bara einu stigi yfir í hálfleik, 41-40.

Þetta var fyrsti sigur Grindavíkurliðsins í deildinni en liðið tapaði á móti Haukum í fyrstu umferð. Skallagrímsliðið hefur aftur á móti tapað tveimur fyrstu leikjum sínum.

Magnús Þór Gunnarsson var stigahæstur hjá Grindavík með 19 stig og Joel Hayden Haywood skoraði 18 stig eins og Ólafur.

Tracey Smith var með 28 stig og 13 fráköst fyrir Skallagrím og Páll Axel Vilbergsson skoraði 19 stig á móti sínum gömlu félögum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×