Körfubolti

Frábær fyrri hálfleikur dugði Þórsurum í sigri á Keflavík

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Keflvíkingarnir Will Graves og Damon Johnson í leiknum í kvöld.
Keflvíkingarnir Will Graves og Damon Johnson í leiknum í kvöld. Vísir/Davíð Þór
Þórsarar úr Þorlákshöfn urðu fyrstir til að vinna Keflvíkinga í Dominos-deild karla í körfubolta í vetur þegar Þór vann fimm stiga sigur, 80-75, í leik liðanna í Icelandic Glacial höllinni í Þorlákshöfn í kvöld.

Keflvíkingar voru búnir að vinna tvo fyrstu leiki sína en Þórsarar sýndu tennurnar í kvöld og hafa nú jafnmörg stig og keflavíkurliðið eftir þrjár fyrstu umferðirnar.

Vincent Sanford skoraði 23 stig fyrir Þórsliðið, Grétar Ingi Erlendsson skoraði 14 stig, Tómas Heiðar Tómasson var með 13 stig og Emil Karel Einarsson skoraði 11 stig.

Will Graves skoraði 25 stig fyrir Keflavík og Damon Johnson var með 20 stig, 10 fráköst og 4 stoðsendingar. Guðmundur Jónsson skoraði 12 stig. Damon skoraði 16 af 20 stigum sínum í seinni hálfleiknum.

Þórsarar gáfu tóninn strax í fyrsta leikhlutanum sem þeir unnu 25-15 og Þórsliðið var síðan komið 18 stigum yfir í hálfleik, 43-25, en Þorlákshafnarmenn hittu meðal annars úr 7 af 9 (78 prósent) þriggja stiga skota sinna í fyrri hálfleiknum.  Tómas Heiðar Tómasson hitti meðal annars úr öllum sínum þremur og var kominn með 11 stig í fyrri hálfleiknum.

Damon Johnson skoraði 9 stig í þriðja leikhlutanum sem Keflavíkurliðið vann 28-17 en Keflvíkingar komu sér með því aftur inn í leikinn enda munurinn orðin aðeins sjö stig, 60-53.

Keflvíkingar settu mikla spennu í leikinn í lokaleikhlutanum og náðu muninum niður í eitt stig, 74-73, en Þórsarar héldu haus og tókst að landa mikilvægum sigri.



Þór Þ.-Keflavík 80-75 (25-15, 18-10, 17-28, 20-22)

Þór Þ.: Vincent Sanford 23/8 fráköst, Grétar Ingi Erlendsson 14, Tómas Heiðar Tómasson 13/4 fráköst, Emil Karel Einarsson 11, Baldur Þór Ragnarsson 9, Nemanja Sovic 6, Oddur Ólafsson 4/8 fráköst.

Keflavík: William Thomas Graves VI 25/9 fráköst, Damon Johnson 20/10 fráköst, Guðmundur Jónsson 12, Gunnar Einarsson 7/5 fráköst, Valur Orri Valsson 6, Davíð Páll Hermannsson 3, Þröstur Leó Jóhannsson 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×