Viðskipti innlent

Lyftistangir hlutabréfamarkaðar

Stjórnarmaðurinn skrifar
Íslenskur hlutabréfamarkaður má muna sinn fífil fegri. Meðalmánaðarvelta nemur 23 milljörðum króna það sem af er ári. Hærri velta en á sama tíma í fyrra, en fölleit í samanburði við miðbik síðasta áratugar þegar ekki var óalgengt að sjá slíkar veltutölur yfir einstaka daga, ekki mánuði.

Hvað veldur samdrættinum? Nokkrir þættir hafa þar mest áhrif:

a) Félögum hefur fækkað um meira en helming frá því er mest var.

b) 43% af skráðum hlutabréfum eru í beinni eða óbeinni eigu lífeyrissjóðanna og skipta því sjaldnar um hendur.

c) Umsvif annarra fjárfesta á markaðnum, annarra fyrirtækja, en ekki síður einstaklinga, hafa dregist verulega saman.

Forsvarsmenn Kauphallarinnar vita vel af þessum vanda. Í síðustu viku stóðu þeir, ásamt markaðsaðilum, að útgáfu skýrslu sem meðal annars inniheldur tíu tillögur að aukinni virkni og gagnsemi íslensks verðbréfamarkaðar. Vert er að staldra sérstaklega við tvær tillögur.

Lagt er til að setja upp sérstakan sjóð sem styður við rannsóknir á sviði verðbréfamarkaðar. Nú, átta árum eftir hrun, leggja greiningardeildir bankanna megináherslu á greiningu og spár um þróun hagvísa. Óhætt er því að fullyrða að lítið er um hágæðagreiningu á rekstri skráðra fyrirtækja. Stjórnarmaðurinn fagnar því að leggja eigi áherslu á að mennta markaðinn en furðar sig jafnframt á því að enginn af bönkunum eða öðrum markaðsaðilum sjái sér hag í því að vera með slíka útgáfu.

Í skýrslunni er einnig sett fram tillaga þess efnis að veita einstaklingum skattaafslátt til hlutabréfakaupa. Stjórnarmanninum þykir þessi tillaga sérstaklega varhugaverð. Meginástæða lystarleysis einstaklinga á hlutabréfamarkaði er sú að traust þeirra á markaðnum er í sögulegu lágmarki. Ekki verður að því hlaupið að auka þetta traust, þó betra og tímanlegra upplýsingaflæði frá fyrirtækjum, innleiðing bestu starfshátta, almennt gagnsæi og aukin umræða og greining á fjárfestingarkostum séu allt liðir í því.

Skattaafsláttur myndi vafalítið auka þátttöku á markaðnum svo einhverju næmi: Sérstaklega þó í formi spákaupmennsku, enda erfitt að stunda vel ígrunduð verðbréfaviðskipti án fyrrnefndra skilyrða. Varhugavert er að hvetja almenning til viðskipta við slíkar aðstæður, einkum með fjárhagslegum hvata. Væri þá betur heima setið en af stað farið.


Tengdar fréttir

Hjakkað í sama farinu

Mótmæli á Austurvelli, fréttir af sekt eða sakleysi Kaupþingsmanna, furðulegar yfirlýsingar seðlabankastjóra, flugvallarmálið og umræður um forsendubrest og leiðréttingu á skuldamálum heimilanna. Hér er ekki verið að lýsa seinni hluta október 2008, heldur fyrstu dögum nóvembermánaðar árið 2014.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×