Sport

Norðmenn betri en Svíar í 26 ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ola Vigen Hattestad.
Ola Vigen Hattestad. Vísir/Getty
Norðmenn monta sig nú af því að þeir hafi undanfarinn aldarfjórðung náð betri árangri á Heimsmeistaramótinu á gönguskíðum en nágrannar þeirra frá Svíþjóð.

Svíar unnu síðast fleiri gull en Norðmenn á HM í skíðagöngu á HM í Lahti árið 1989. Þá tóku Svíar þrjú gull en Norðmenn ekki neitt. Gunde Svan vann öll þessu þrjú gull fyrir Svía, tvö í einstaklingsgöngum en eitt í boðgöngu.

Síðan þá hafa farið fram tólf heimsmeistaramót og Norðmenn hafa unnið fleiri gull en Svíar á þeim öllum og hafa samtals 54-11 forystu í gullverðlaunum frá 1991 til 2013.

„Svíar hafa vanist því að vera litli bróðir og svo verður einnig í framtíðinni. Það er mjög ánægjulegt að hugsa um það að við erum búnir að vera betri í 26 ár," sagði norski Ólympíumeistarinn Ola Vigen Hattestad í samtali við Aftonbladet.

Á síðasta HM í skíðagöngu sem fór fram í Val di Fiemme á Ítalíu árið 2013 þá unnu Norðmenn sjö gull og alls sextán verðlaun á móti einu gulli og sjö verðlaunum hjá Svíum.

Svíar halda næsta HM í skíðagöngu sem fer fram í Falun 18. febrúar til 1. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×