Handbolti

Þórey: Ég bjóst við þeim betri

Stelpurnar glaðar eftir leik.
Stelpurnar glaðar eftir leik. vísir/ernir
„Ég er mjög sátt. Við spiluðum mikið betri leik en gegn Ítalíu hérna heima. Það var mikið betri stemning og mikið betra flot á sóknarleiknum og mikið betri hraðaupphlaup,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir hægri hornmaður Íslands eftir sigurinn á Makedóníu í kvöld.

„Við duttum niður í svolítið kæruleysi inn á milli í vörninni en heilt yfir er ég mjög sátt.

„Við bættum sóknarleikinn og gerðum færri mistök en gegn Ítalíu. Það var betri andi líka og meiri kraftur í öllu sem við gerðum,“ sagði Þórey sem hrósaði Karenu Knútsdóttur í hástert en Karen er búin að skora 34 mörk í leikjunum þremur í forkeppni heimsmeistaramótsins.

„Hún er ótrúleg. Frábær leikmaður. Hún er með sjálfstraustið í botni og það er vel gert að halda áfram. Hún á ekki bara einn góðan leik, hún heldur bara áfram. Það sýnir hvaða klassa leikmaður hún er.“

Ísland á einn leik eftir þó sætið í umspilinu sé tryggt. Hann er úti í Makedóníu á laugardaginn.

„Ætli við leggjum þetta ekki svipað upp og þennan leik. Við viljum vinna þann leik líka. Við erum með betra lið en Makedónía. Ég bjóst við þeim betri.

„Það er líka fyrir okkur sjálfar að vera ekki að tapa einhverjum leikjum sem við eigum ekki að tapa,“ sagði Þórey sem ætlar sér ekkert annað en sigur úti í Makedóníu á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×