Handbolti

Karen: Við erum mikið betri en þetta lið

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Karen hefur skorað 34 mörk í 13 leikjum í undankeppninni.
Karen hefur skorað 34 mörk í 13 leikjum í undankeppninni. vísir/ernir
„Mér fannst þetta mjög skemmtilegur leikur. Í síðasta leik náðum við ekki að nýta vörnina með hraðaupphlaupum en við náðum því í dag og allir skiluðu sínu,“ sagði Karen Knútsdóttir leikstjórnandi Íslands sem fór mikinn þegar Ísland lagði Makedóníu í kvöld.

„Við ætluðum að klára þetta á heimavelli. Það er erfitt að fara til Makedóníu. Þú veist aldrei á hverju þú átt von á þar. Við komum mjög vel stemmdar og við höfum verið mjög einbeittar á allt þetta verkefni. Þetta var framhald af því,“ sagði fyrirliðinn sem gat auðveldlega útskýrt vandræðaganginn á vörn Íslands í fyrri hálfleik.

„Við vorum kannski farnar að vilja hlaupa upp völlinn og skora nokkur mörk og gleymdum okkur aðeins í vörninni. Það má auðvitað ekki gerast. Það er dýrt á móti betri liðum en við gátum leyft okkur það í kvöld.

„Við ákváðum að byrja seinni hálfleikinn af krafti. Við vorum sáttar með fyrir hálfleikinn en ekki alveg nógu sáttar og ákváðum að bæta það upp á upphafsmínútum seinni hálfleiks sem við náðum að gera.

„Við erum mikið betri en þetta lið og náðum að sýna það í kvöld.

„Við vinnum gríðarlega vel fyrir hverja aðra og það er ekki bara sú sem skorar mörkin sem á hrós skilið,“ sagði hógvær Karen sem var allt í öllu í góðum sóknarleik Íslands.

„Við erum í forkeppni núna og eigum að vera betri en þessi lið. Við eigum heima í undankeppninni og erum búnar að sýna það. Nú er bara að bíða og sjá hvaða þjóð við fáum næst,“ sagði Karen en það kemur í ljós eftir Evrópumeistaramótið sem hefst síðar í mánuðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×