Handbolti

Guðjón Valur gæti jafnað sögulegt afrek

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðjón Valur fagnar einu marka sinna á EM í Danmörku.
Guðjón Valur fagnar einu marka sinna á EM í Danmörku. Vísir/Daníel
Guðjón Valur Sigurðsson á góða möguleika á því að verða markakóngur EM í Danmörku en fyrirliði íslenska landsliðsins hefur skorað 44 mörk í sex leikjum og er með sex marka forskot á næsta mann.

Ísland mætir Póllandi í dag í leiknum um fimmta sætið á mótinu en leikurinn fer fram klukkan þrjú að íslenskum tíma. Íslenska liðið hjálpar vonandi fyrirliða sínum að tryggja sér markakóngstitilinn en liðið gæti jafnframt komist í þriðja sinn í hóp fimm bestu liða á EM.

Næstu tveir menn á eftir Guðjóni á listanum, þeir Kiril Lazarov frá Makedóníu (38 mörk) og Siarhei Rutenka frá Hvíta-Rússlandi (34 mörk), hafa báðir lokið keppni. Guðjón Valur er síðan með tólf marka forskot á Spánverjann Joan Canellas sem á eftir tvo leiki á mótinu.

Annar Spánverji, Víctor Tomás, er síðan fimmtán mörkum á eftir íslenska hornamanninum og danska stórskyttan Mikkel Hansen er síðan í sjötta sætinu sextán mörkum á eftir okkar manni og hann á eftir tvo leiki.

Guðjón Valur hefur áður orðið markakóngur á stórmóti en hann varð markahæstur á HM í Þýskalandi árið 2007.

Guðjón Valur getur komist í fámennan hóp takist honum að tryggja sér markakóngstitilinn í Danmörku. Það hefur bara einum manni tekist að verða markakóngur á bæði HM og EM og það er Makedóníumaðurinn Kiril Lazarov. Hann varð markahæstur á bæði HM í Króatíu 2009 og á EM í Serbíu 2012. Nú er að sjá hvort Guðjón Valur nær einnig tvennunni um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×