Sport

Snyrtitaskan óvart með í handfarangur

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Einar Kristinn Kristgeirsson og María Guðmundsdóttir.
Einar Kristinn Kristgeirsson og María Guðmundsdóttir. Vísir/Vilhelm
Andrei V. Tsyganov, sendiherra Rússlands á Íslandi, bauð íslensku Ólympíuförunum í heimsókn í síðustu viku þegar tilkynnt var hverjir myndu keppa fyrir Íslandshönd. Í ræðu sinni til íslenska íþróttafólksins í sendiráðsbústaðnum í Garðastræti minnti sendiherrann á það að taka engan vökva með sér í handfarangri í flugið til Rússlands.

Breiðhyltingurinn Einar Kristinn Kristgeirsson, sem keppir í svigi og stórsvigi í Sotsjí, ætlaði svo sannarlega að hafa ráðleggingar Tsyganov í húfi.

„Ég hef lent í því síðustu tvö skipti sem ég hef farið út að gleyma snyrtitöskunni í handfarangrinum. Gelið er þess vegna alltaf tekið af mér af öryggisvörðunum svo ég get ekki verið með neitt „dú“,“ segir Einar Kristinn og hlær.

Alþekkt er að knattspyrnumenn í dag verja margir hverjir mínútum fyrir framan spegilinn áður en haldið er út á völlinn. Skíðafólk klæðist hins vegar hjálmum þannig að gelið skiptir væntanlega ekki máli hjá því, eða hvað?

„Við setjum auðvitað á okkur hjálm en þegar hann er tekinn af verður maður að vera flottur,“ segir Ólympíufarinn á léttu nótunum. „Þetta fer svolítið eftir því hvernig maður er stemmdur þegar maður vaknar snemma á morgnana. Summir nenna því einfaldlega ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×