Skoðun

Stöðugleiki og ábyrgð

S. Björn Blöndal skrifar
Fæstir tengdu Besta flokkinn við stöðugleika og ábyrgð þegar við tókum við borginni fyrir fjórum árum, ekki einu sinni við sjálf. En það kom í ljós að eftir margra ára óstöðugleika og ábyrgðarleysi var þetta einmitt það sem vantaði. Við löguðum okkur að því: það þurfa þau að gera sem eru kosin til að vinna fyrir fólk.

Borgin þarf áfram stöðugleika og ábyrgð. Á þessu kjörtímabili höfum við komið Orkuveitunni úr vonlausri stöðu í góða stöðu. Við höfum unnið gegn atvinnuleysi með háu framkvæmdastigi og markvissum vinnumarkaðsaðgerðum. Og við ætlum að halda uppteknum hætti.

Við getum ekki aðeins fagnað árangri á þessu kjörtímabili – við höfum líka lært. Við vitum að ábyrg fjármálastjórn skilar borginni miklu meiri hagnaði þegar til lengri tíma er litið en alls konar æfingar með gjöld og útsvar. Þær koma bara aftan að fólki síðar.

Hvers vegna hefur okkur tekist að ná þessum stöðugleika og hvernig getum við tryggt hann áfram? Við nálguðumst verkefnin af auðmýkt og reyndum að skapa andrúmsloft samvinnu. Það er mikill fjársjóður falinn í stöðugleika.

Það er líka mikill fjársjóður falinn í gleði og góðu viðmóti og í umhverfi samvinnu og gagnkvæmrar virðingar er eftirsóknarverðara að axla ábyrgð og auðveldara að standa undir miklum kröfum. Þannig vinnur Björt framtíð áfram. Ávinningurinn af stöðugleikanum er byrjaður að koma í ljós og hann verður ómældur ef stefna Bjartrar framtíðar ræður ferðinni. Reykjavík er nú þegar eftirsóttur áfangastaður ferðamanna, listafólks, fólks í skapandi greinum og frumkvöðla.

Pólitískur stöðugleiki þýðir að stefna er mótuð til lengri tíma. Þeir sem ráða ferðinni velja áherslur sem standast og geta séð til þess að þær standist. Reykjavík er borg menningar, frumkvæðis og fjölbreytileika. Sá pólitíski stöðugleiki sem Björt framtíð getur lofað, ef hún fær góða kosningu, er að Reykjavík eflist enn frekar sem nútímaleg menningarborg. Slíkar borgir draga til sín skemmtilegt og hæfileikaríkt fólk og það gerir borgarlífið betra.

Lesendur Vísis geta sent inn greinar á greinar@visir.is. Greinunum þarf að fylgja mynd af höfundi.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×