Körfubolti

Megum ekki hálshöggva dómara fyrir hver mistök

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sigmundur Már Herbertsson er fremsti dómari landsins.
Sigmundur Már Herbertsson er fremsti dómari landsins.
Rúnar Birgir Gíslason, formaður dómaranefndar KKÍ, telur að álag á körfuboltadómara hér á landi sé ekki of mikið. Þessa dagana er úrslitakeppnin í fullum gangi í efstu deild karla og kvenna sem og neðri deildum og dómarar hafa verið nokkuð gagnrýndir fyrir sín störf, bæði af leikmönnum og þjálfurum.

„Þetta er ekki meira álag en verið hefur,“ segir Rúnar Birgir í samtali við Fréttablaðið og telur ekki að pirringur gagnvart dómurum sé að aukast.

„Nú er úrslitakeppnin í fullum gangi og mikið undir í leikjunum. Svona hefur þetta verið í gegnum tíðina og þetta er ekki meira en áður,“ segir hann.

„En dómaranefndin er sífellt að vinna í því að bæta dómgæsluna og ræðir við dómara gerist þess þörf. Ef hún telur að það sé þörf að taka á ákveðnum málum er það gert.“

Rúnar Birgir bætir því við að það sé markvisst unnið í því að bæta frammistöðu dómaranna en segir að bæta þurfi eftirlitskerfi fyrir þá.

„Um það eru allir sammála. Það kostar hins vegar pening að setja slíkt kerfi í gang og því hefur ekki fundist ásættanleg lausn á hvernig skuli standa að því. En það er vilji allra í hreyfingunni að koma á góðu eftirlitskerfi fyrir dómarana.“

Hann segir þó margt annað gert til að halda dómurunum við efnið. „Það eru bæði þrekpróf og skrifleg próf sem dómarar þurfa að þreyta og þá geta dómarar sótt sér fræðsluefni á netinu og tekið þar alls kyns próf sem reyna á kunnáttu þeirra. Um tilraunaverkefni er að ræða en við stefnum að því að í framtíðinni muni virkni dómara í þessu umhverfi og frammistaða þeirra í prófunum ráða niðurröðun á leiki,“ segir Rúnar Birgir.

„Við vitum að menn eru ósáttir af ýmsum ástæðum en ef við ætlum að hálshöggva dómara fyrir hver mistök verðum við fyrir vikið dómaralausir,“ bætir Rúnar við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×