Handbolti

Strákarnir okkar vilja fullt hús fyrir vestan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Aron fer með landsliðið til Ísafjarðar á morgun.
Aron fer með landsliðið til Ísafjarðar á morgun. vísir/daníel
Ísland mætir Portúgal í fyrsta æfingaleik liðanna af þremur á morgun en leikurinn fer fram á Ísafirði. Strákarnir okkar eru nú að undirbúa sig fyrir mikilvæga leiki gegn Bosníu en í húfi er sæti á HM í Katar.

„Það hefur eitthvað verið um meiðsli og veikindi í hópnum en annars hafa æfingar gengið mjög vel,“ sagði Aron Kristjánsson landsliðsþjálfari við Fréttablaðið í gær.

„Helsti vandinn er að við gátum lítið æft vörnina þar sem Sverre [Jakobsson] og Bjarki Már [Gunnarsson] hafa verið meiddir. En við getum notað leikina til að fínpússa varnarleikinn.“

Þá hafa nokkrar af yngri leikmönnum liðsins misst af æfingum. „RóbertAron [Hostert] hefur verið fárveikur síðan á mánudag og þeir Sigurbergur [Sveinsson] og ÁrniSteinn [Steinþórsson] verið meiddir. Þetta eru menn sem áttu að fá sénsinn í þessum leikjum og við vonum að þeir geti spilað,“ bætti Aron við en að auki þurfti markvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson að draga sig út úr hópnum vegna meiðsla.

Hann segir það verða skemmtilega upplifun að spila á Ísafirði. „Ég vona bara að fólk fjölmenni og styðji okkur. Það væri mjög gaman að fá fullt hús.“

Leikurinn hefst klukkan 16.00 á morgun en á mánudagskvöld mætast liðin í Mosfellsbæ og svo í Austurbergi á þriðjudag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×