Skoðun

Að virða vilja borgarbúa

Júlíus Vífill Ingvarsson skrifar
Þau sem krefjast kurteislegra samskipta verða að byrja á sjálfum sér. „Ef þú smælar framan í heiminn þá smælar heimurinn framan í þig“. Samskiptaferlum borgarinnar við borgarbúa verður að breyta og hefja undirbúning mála fyrr í góðu samráði og á jafnræðisgrunni. Hættum að hugsa og tala um borgina sem yfirvald. Við sem sitjum í borgarstjórn eigum að treysta því að borgarbúar þekki sitt nærumhverfi best og að þeir séu best til þess fallnir að leiða fram góðar breytingar.

Við verðum að læra af mistökunum. Engin borgarstjórn hefur efnt til jafn mikils ófriðar við borgarbúa og sú sem setið hefur undanfarin fjögur ár. Og kannski einmitt þess vegna hefur engin borgarstjórn verið jafn upptekin af því að tengja sig friði og friðarást. Aldrei hafa mótmæli verið fjölmennari og háværari. Það vill gleymast að frelsi til að mótmæla og koma með þeim hætti fram sjónarmiðum sínum eru mikilvæg grundvallarmannréttindi sem ber að virða og nálgast af hófsemd.

Þegar um 70 þúsund undirskriftir voru afhentar í ráðhúsinu í fyrra vegna aðalskipulagsins var þeim sem afhentu mótmælin svarað með hálfkæringi. Ekkert tillit var tekið til mótmælanna. Sömu tilfinningu fengu foreldrar þegar þeir fylltu grunnskólana og mótmæltu fyrirhuguðum sameiningum skólanna í borginni. Á fundunum kraumaði undir réttlát reiði foreldra en samt reyndist lítill vilji hjá borgarstjórnarmeirihlutanum til að vinna með lýðræðislegum hætti að svo viðkvæmum og flóknum breytingum. Undirskriftir 12 þúsund manna virtust skipta litlu máli.

Nýlega voru settar fram tillögur að hverfisskipulagi og enn og aftur var ekki haft samráð við borgarbúa enda þótt tillögurnar hefðu mjög skaðleg áhrif á umhverfisgæði og rétt íbúðareigenda. Aldrei fyrr hefur sveitarfélag boðað eignaupptöku í skipulagsáætlun. Viðbrögð úr öllum hverfum voru mjög sterk og einn virðulegur öldungur sagði í blaðaviðtali að fólk sem hann talaði við væri bara agndofa. Hörð viðbrögð sem þessi sýna að Reykvíkingar treysta því ekki að á þá sé hlustað nema þeir undirbúi sig undir átök að hætti Sturlunga. Það er á ábyrgð borgarfulltrúa að veita borgarbúum frelsi til að taka sjálfir ákvarðanir í mikilvægum málum. Það krefst þess að kjörnir fulltrúar hafi vilja og kjark til að treysta borgarbúum. Einungis þannig endurvekjum við traust.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×