Skoðun

Fjölskylduskatturinn

Bjarkey Gunnarsdóttir skrifar
Nú eru línur teknar að skýrast í vinnunni við fjárlagafrumvarp næsta árs. Fréttir berast af því að ríkisstjórnin, og þá sérstaklega Sjálfstæðisflokkurinn, leggi sérstaka áherslu á breytingar á virðisaukaskattkerfinu.

Fjármálaráðherra hefur sérstaklega talað fyrir því að tvöfalda virðisaukaskattinn á matvæli, færa hann úr 7% í 14% í tveimur skrefum, en lækka um leið virðisaukaskattinn á aðrar vörur, þar á meðal ýmsar lúxusvörur, um 1%.

Það liggur fyrir að með slíkri hækkun á matvæli væri ríkisstjórnin enn og aftur að þyngja byrðar þeirra sem lægri tekjur hafa. Ekki síst kemur þetta sér illa fyrir ungar og barnmargar fjölskyldur. Sú 1% lækkun á efra þrepinu sem talað hefur verið um er á vörum sem þeir sem lágar tekjur hafa neita sér frekar um. Hins vegar þurfa allir að borða og því ljóst að þessi breyting mun bitna á þeim sem síst skyldi og spyrja má hvort fjármálaráðherrann hafi reiknað út hvaða áhrif það hafi á verðbólguna og skuldastöðu heimilanna?

Ég held að við getum flest verið sammála um að verð á matvöru hefur hækkað töluvert og fæst viljum við greiða hærra verð en við nú þegar gerum. Það liggur í augum uppi að þeir sem lægri tekjur hafa kaupa alla jafna ódýrari mat en þeir sem hærri tekjur hafa. Staðreyndin er sú að um 60% lágtekjufólks eiga erfitt með að láta enda ná saman, en einungis um fjórðungur hátekjufólks. Með hækkun matarskattsins er ljóst að lágtekjufólk mun eiga enn erfiðara með að ná endum saman. Á sama tíma hefur ríkisstjórnin hækkað gjöld á sjúklinga og skráningargjöld í háskólum, sem enn og aftur kemur verst við marga þá sem eru verst settir fyrir.

En hvers vegna telur ríkisstjórnin sig þurfa að hækka matarskatt og gjöld í mennta- og heilbrigðiskerfinu? Er það ekki vegna þess að sama ríkisstjórn ákvað að afnema auðlegðarskattinn og stórlækka veiðigjöldin? Forgangsröðunin verður ekki mikið skýrari: Kvótakóngar og stóreignafólk fá afhentar milljónir á silfurfati á meðan lágtekjufólk og fjölskyldur eru látnar borga brúsann. Þessari fyrirhrunspólitík verður ekki tekið þegjandi og hljóðalaust þegar málið kemur inn á borð Alþingis og fjárlaganefndar.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×