Satt og logið um siðareglur Jón Ólafsson skrifar 15. ágúst 2014 10:15 Lekamálið í innanríkisráðuneytinu varð til þess í síðustu viku að fjölmiðlar hófu að spyrja um hvað orðið hefði af siðareglum þeim sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur samþykkti fyrir sína hönd árið 2011. Ýmis svör voru gefin við spurningunni, allt frá því að í raun væri litið svo á að reglur fyrri ríkisstjórnar giltu fyrir núverandi ríkisstjórn, til þess að vinna væri hafin við gerð nýrra siðareglna. Allt var þetta fremur vandræðalegt enda er kjarni málsins mjög einfaldur: Ríkisstjórnin hefur ekki á rúmu ári sem liðið er frá því að hún tók við völdum getað gengið frá því formsatriði að staðfesta siðareglur fyrri ríkisstjórnar. Það sem verra er, forsætisráðherra hefur ekki heldur gefið sér tíma til að skipa nýja Samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni, en henni var komið á fót árið 2010. Á þriggja ára starfstíma sínum annaðist hún samningu siðareglna fyrir ráðherra, starfsmenn stjórnsýslunnar og almenna ríkisstarfsmenn. Skipunartíma hennar lauk 30. september 2013. Samkvæmt lögum hefur nefndin áfram það hlutverk að vinna að því með stjórnsýslunni að efla siðferðileg viðmið.Sjálfsagðar siðareglur Siðareglur eru ekki flókið fyrirbæri. Þær eru löngu orðnar alsiða í atvinnulífi og stjórnsýslu. Nú þykir sjálfsagt mál að fyrirtæki og stofnanir setji sér siðareglur í þeim tilgangi annars vegar að efla góða starfshætti og setja starfsfólki skýra siðferðilega mælikvarða, hins vegar til að gefa hagsmunaaðilum til kynna eftir hvaða grundvallarreglum starfað sé. Þó nægir ekki að setja siðareglur, þær eru aðeins einn áfangi í því að bæta starfshætti. Mikilvægast er, hvort sem um er að ræða atvinnulíf eða stjórnsýslu, að fólk reyni að sjá fyrir hættur sem geta verið á hagsmunaárekstrum, spillingu eða rangindum og bregðist við slíkum hættum fyrirfram. Þetta er einmitt tilgangur siðareglna fyrir ráðherra: þeir eiga að geta nýtt sér reglurnar til að ígrunda ákvarðanir sínar og athafnir. Með því að fylgja siðareglum minnka þeir líkur á því að andstæðingar geti dregið úr trúverðugleika þeirra eða haldið því fram að annarleg sjónarmið ráði ferðinni. Nú veit ég ekki hversu mikil umræða hefur farið fram um þessar ágætu reglur meðal ráðherra okkar, en get þó ekki annað en bent á að engin merki eru um að minnsta tillit hafi verið tekið til þeirra í nokkrum málum sem hafa komist í kastljós fjölmiðlanna að undanförnu. Ég get tekið fáein dæmi:Laxveiði og embættisverk Fyrr í sumar voru forsætisráðherra og fjármálaráðherra gagnrýndir fyrir það að þiggja boð um að veiða lax í Norðurá í tilefni af því að veiðitímabil var að hefjast. Það voru einkaaðilar sem buðu ráðherrunum og ekki var að sjá að boðið tengdist sérstökum embættisverkum þeirra. Ráðherrarnir urðu afar hneykslaðir þegar þeir voru gagnrýndir fyrir þetta, töldu illa að sér vegið, ýmsir hefðu nú þegið viðlíka ferðir áður, borgarstjórinn í Reykjavík væri alltaf boðinn í lax fyrsta veiðidag í Elliðaánum og svo væri nú ekki nema sjálfsagt að styðja við veiðiréttarhafa árinnar enda væri duglegt athafnafólk í forsvari fyrir þá. Allt er þetta góðra gjalda vert, en breytir ekki því að í hinum formlega óstaðfestu siðareglum segir að boðsferðir sem þessar skuli ekki þiggja nema þær séu í tengslum við embættisverk. Nú má spyrja: áttu ráðherrarnir þá ekki að þiggja boðið? Brutu þeir siðareglur með því að þiggja það? Það er ekki rétt að gerast dómari í málinu nema allir málavextir séu kunnir, en ef Samhæfingarnefndin hefði verið starfandi og ráðherrarnir hefðu leitað álits hennar er líklegt að hún hefði bent þeim á þetta ákvæði reglnanna. Í framhaldinu hefðu þeir þurft að hugsa betur um þátttöku sína. Kannski hefði það orðið til þess að þeir hættu við, kannski hefðu þeir hugsað þátttöku sína öðru vísi og sett í betra og skiljanlegra samband við embætti sín en gert var. Lærdómurinn er ósköp einfaldur: Ef maður gegnir valdamiklu opinberu embætti þarf maður að hugsa um gerðir sínar og sjá afleiðingar þeirra fyrir. Ráðherra getur ekki brugðist ókvæða við gagnrýni og sakað gagnrýnendur um ofstopa eða andúð á sér. Hann eða hún verður að gefa málefnaleg og skýr svör við spurningum sem vakna um einstakar athafnir. Hafi siðareglur í raun verið til hliðsjónar aukast líkur á því að hægt sé að gefa fullnægjandi svör.Landsbjörg safnar lífssýnum Mig langar að nefna annað dæmi um atvik sem hefði ekki þurft að koma upp, að minnsta kosti ekki með sama hætti, ef Samhæfingarnefndin hefði verið starfandi. Í vor tóku Landsbjörg og Íslensk erfðagreining höndum saman um söfnun lífssýna til að styrkja rannsóknagrunn fyrirtækisins. Fyrirtækið sendi stóru úrtaki þjóðarinnar bréf ásamt áhöldum til að útbúa lífssýni og óskaði eftir þátttöku. Svo gengu sjálfboðaliðar í hús og söfnuðu sýnum þeirra sem samþykktu að vera með. Fyrir hvert sýni fékk félagið ákveðna peningaupphæð að launum frá fyrirtækinu. En þá bar svo við að fjöldi fólks gagnrýndi herferðina harðlega. Bent var á að framkvæmd hennar vekti miklar efasemdir, ekki síst vegna þess að fólki væri gert erfitt að hafna þátttöku. Pressan sem lögð væri á þá sem lent hefðu í úrtakinu með því að tengja lífssýnagjöfina við stuðning við sjálfboðaliðastarf björgunarsveitanna væri þess eðlis að hún jaðraði við nauðung. Hér var bersýnilega farið af stað án þess að hugað væri að þeim viðbrögðum sem framkvæmdin kynni að vekja. Í stað þess að reynt væri að sjá fyrir á hvern hátt mögulegt væri að gagnrýna aðferðina sem beitt var létu menn sig slíka gagnrýni einu gilda. Hér hefði Samhæfingarnefndin á sama hátt getað leikið mikilvægt hlutverk. Þáttur Vísindasiðanefndar sem samþykkti söfnunina er of þröngur þar sem almennari siðferðileg viðmið þurfa að vera til hliðsjónar en þau sem hún starfar eftir. Eðlilegt hefði verið að setja leyfisveitingu ákveðin skilyrði sem dregið hefðu úr þeim göllum sem blöstu við, þegar farið var af stað með söfnunina. Samhæfingarnefndin hefur að sjálfsögðu engin völd til að setja skilyrði, en hún getur gefið viðeigandi aðilum ráð um slíkt. Auðvitað getur alltaf gerst að nefndir sem eiga að gefa álit séu mönnum fjötur um fót og torveldi það sem þeim finnst vera þjóðþrifaverk hverju sinni. En slíkt er eðlilegra að sjá sem áskorun um að gera betur frekar en sem leiðinlega truflun. Það er augljóst líka að oftast er tímasparnaður að því að vanda til áður en farið er af stað, geti menn með því losnað við gagnrýni og langvarandi ósamlyndi á síðari stigum.Lekinn í innanríkisráðuneytinu Og loks höfum við þriðja dæmið og það sem mest er rætt um þessa dagana, en það er auðvitað lekamálið. Eftir því sem ég fæ best séð hefur þetta mál greinst í sundur í nokkur ólík álitamál með tímanum. Spurningarnar eru að sama skapi ólíkar. Í fyrsta lagi varðar spurningin lekann sjálfan og hvernig rétt hefði verið að bregðast við honum. Í öðru lagi er spurningin um lögreglurannsóknina og hvernig rétt sé að bregðast við henni og í þriðja lagi um hvaða takmarkanir slík rannsókn setji samskiptum ráðherra við lögreglu og þá hvort hann sé fær um að vera í stöðu æðsta yfirmanns lögreglumála á meðan rannsóknin fer fram. Það er líklegt að betur hugsuð viðbrögð á fyrri stigum málsins hefðu komið í veg fyrir vandræðagang síðustu vikna. Ráðherra hefur kosið að saka gagnrýnendur sína um ósanngjarnar árásir, en þó blasir við að jafnvel þótt margt af því sem sagt hefur verið kunni að vera ósanngjarnt, þá er kjarni málsins eftir sem áður að samskipti hennar við lögreglu, svör við spurningum fjölmiðla og viðbrögð við einstökum atvikum málsins vekja efasemdir sem geta rýrt trúverðugleika embættisins. Í siðareglunum eru nokkur ákvæði sem auðvelt er að tengja við málsatvik lekamálsins og eru á ábyrgð ráðherra, alveg óháð því hver hennar þáttur í málinu reynist vera á endanum. Með því að nýta siðareglurnar og jafnvel eiga kost á að leita til óháðs aðila innan stjórnkerfisins á borð við Samhæfingarnefndina til að fá ráð um hvernig bregðast eigi við aðstæðum af þessu tagi er líklegra að komast megi hjá erfiðleikum síðar, en þegar brugðist er við af hörku og tekið til varna eins og það að taka mark á gagnrýni jafngildi því að viðurkenna misferli.Eru þessi mál pólitísk? Nú getur vel verið að ein ríkisstjórn sé lítt hrifin af því að þurfa að taka upp óbreytt það sem önnur ríkisstjórn hefur ákveðið. En eins og ég benti á í upphafi þessarar greinar eru siðareglur og tilteknar formlegar aðferðir til að bregðast við vanda sem er siðferðilegs eðlis löngu orðnar viðteknar í samfélaginu. Það skiptir engu máli hvaða pólitísku viðhorf eru ríkjandi í stjórnkerfinu hverju sinni þegar almenn, einföld og sjálfsögð siðferðileg viðmið eru annars vegar. Ríkisstjórnin er því sjálfri sér verst að humma fram af sér að koma þessum málum í sinn eðlilega farveg, og því ekki hægt að óska annars en að hún reki af sér slyðruorðið sem allra fyrst. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Lekamálið Mest lesið Ráðherrann Gísli Hvanndal Jakobsson Skoðun Það er allt í lagi að vera þú sjálfur - Opið bréf til Snorra Mássonar Kári Stefánsson Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson Skoðun Viðreisn er Samfylkingin Júlíus Viggó Ólafsson Skoðun Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson Skoðun Mun forseti Íslands fremja landráð? Ástþór Magnússon Skoðun Er skynsemi Sigmundar Davíðs o.fl. skynsamleg? Ole Anton Bieltvedt Skoðun Sjálfskaparvíti Samfylkingar og Viðreisnar Birta Karen Tryggvadóttir Skoðun Skoðun Skoðun Tími fyrir breytingar – Nú er tækifærið Anna Sofía Kristjánsdóttir skrifar Skoðun Ölvunarakstur á Arnarnesbrú Anna Linda Bjarnadóttir skrifar Skoðun Flokknum er sama um þig Valgerður Árnadóttir skrifar Skoðun Þéttingarstefnan í Reykjavík er efnahagslegt vandamál Guðlaugur Þór Þórðarson skrifar Skoðun Virði en ekki byrði Hulda Bjarnadóttir skrifar Skoðun Sjálfstæðisflokkurinn – svarið fyrir fjölskyldur og ungt fólk Guðbjörg Oddný Jónasdóttir skrifar Skoðun Vanrækt barn er besti ráðherrann Sævar Þór Jónsson skrifar Skoðun Fjárfestum í vellíðan – því hver króna skilar sér margfalt til baka Theodór Ingi Ólafsson skrifar Skoðun Úr öskunni í eldinn á laugardaginn? Jón Steindór Valdimarsson skrifar Skoðun Skuggaspil valdsins Anna Kristín Jensdóttir skrifar Skoðun Viltu að barnabörnin þín verði fátækir leiguliðar? Hildur Þórðardóttir skrifar Skoðun Nýtt upphaf – í þjónustu við þjóðina Arna Lára Jónsdóttir skrifar Skoðun Hlustum á hvert annað og breytum þessu Aðalsteinn Leifsson skrifar Skoðun Kæru landsmenn – þetta er ekki lengur boðlegt Ágústa Árnadóttir skrifar Skoðun XL niðurskurður – hugsum stórt! Arnar Þór Jónsson,Kári Allansson skrifar Skoðun Blórabögglar og gylliboð frá vinstri Njáll Trausti Friðbertsson skrifar Skoðun Hvað kjósa foreldrar ósýnilegra barna? Vigdís Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Heimskasta þjóð í heimi? Sverrir Björnsson skrifar Skoðun Jöfnum leikinn á laugardaginn Björgvin G. Sigurðsson skrifar Skoðun ADHD, fjórir stafir og hvað svo? Jóna Kristín Gunnarsdóttir skrifar Skoðun Skattagleði á kostnað ferðaþjónustunnar Hildur Sverrisdóttir skrifar Skoðun Börnin heim Hanna Katrín Friðriksson skrifar Skoðun Mun forseti Íslands fremja landráð? Ástþór Magnússon skrifar Skoðun Ég býð mig fram fyrir framtíðarkynslóðir Finnur Ricart Andrason skrifar Skoðun Rödd mannréttinda, jöfnuðar og jafnréttis þarf að hljóma á Alþingi Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar Skoðun Gera þarf skurk í búsetumálum eldri borgara Ólafur Ísleifsson skrifar Skoðun „Ég hefði nú ekkert á móti því að taka aðeins í tæjuna“ Eva Pandora Baldursdóttir skrifar Skoðun Vilt þú breytingu á stjórn landsins? Hannes S. Jónsson skrifar Skoðun Hugsjónir ójafnaðarmanns - svar við bréfi Kára Snorri Másson skrifar Skoðun Af hverju er nauðsyn að fá Sósíalista inn á þing og í næstu ríkisstjórn? Ólafur H. Ólafsson skrifar Sjá meira
Lekamálið í innanríkisráðuneytinu varð til þess í síðustu viku að fjölmiðlar hófu að spyrja um hvað orðið hefði af siðareglum þeim sem ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur samþykkti fyrir sína hönd árið 2011. Ýmis svör voru gefin við spurningunni, allt frá því að í raun væri litið svo á að reglur fyrri ríkisstjórnar giltu fyrir núverandi ríkisstjórn, til þess að vinna væri hafin við gerð nýrra siðareglna. Allt var þetta fremur vandræðalegt enda er kjarni málsins mjög einfaldur: Ríkisstjórnin hefur ekki á rúmu ári sem liðið er frá því að hún tók við völdum getað gengið frá því formsatriði að staðfesta siðareglur fyrri ríkisstjórnar. Það sem verra er, forsætisráðherra hefur ekki heldur gefið sér tíma til að skipa nýja Samhæfingarnefnd um siðferðileg viðmið í stjórnsýslunni, en henni var komið á fót árið 2010. Á þriggja ára starfstíma sínum annaðist hún samningu siðareglna fyrir ráðherra, starfsmenn stjórnsýslunnar og almenna ríkisstarfsmenn. Skipunartíma hennar lauk 30. september 2013. Samkvæmt lögum hefur nefndin áfram það hlutverk að vinna að því með stjórnsýslunni að efla siðferðileg viðmið.Sjálfsagðar siðareglur Siðareglur eru ekki flókið fyrirbæri. Þær eru löngu orðnar alsiða í atvinnulífi og stjórnsýslu. Nú þykir sjálfsagt mál að fyrirtæki og stofnanir setji sér siðareglur í þeim tilgangi annars vegar að efla góða starfshætti og setja starfsfólki skýra siðferðilega mælikvarða, hins vegar til að gefa hagsmunaaðilum til kynna eftir hvaða grundvallarreglum starfað sé. Þó nægir ekki að setja siðareglur, þær eru aðeins einn áfangi í því að bæta starfshætti. Mikilvægast er, hvort sem um er að ræða atvinnulíf eða stjórnsýslu, að fólk reyni að sjá fyrir hættur sem geta verið á hagsmunaárekstrum, spillingu eða rangindum og bregðist við slíkum hættum fyrirfram. Þetta er einmitt tilgangur siðareglna fyrir ráðherra: þeir eiga að geta nýtt sér reglurnar til að ígrunda ákvarðanir sínar og athafnir. Með því að fylgja siðareglum minnka þeir líkur á því að andstæðingar geti dregið úr trúverðugleika þeirra eða haldið því fram að annarleg sjónarmið ráði ferðinni. Nú veit ég ekki hversu mikil umræða hefur farið fram um þessar ágætu reglur meðal ráðherra okkar, en get þó ekki annað en bent á að engin merki eru um að minnsta tillit hafi verið tekið til þeirra í nokkrum málum sem hafa komist í kastljós fjölmiðlanna að undanförnu. Ég get tekið fáein dæmi:Laxveiði og embættisverk Fyrr í sumar voru forsætisráðherra og fjármálaráðherra gagnrýndir fyrir það að þiggja boð um að veiða lax í Norðurá í tilefni af því að veiðitímabil var að hefjast. Það voru einkaaðilar sem buðu ráðherrunum og ekki var að sjá að boðið tengdist sérstökum embættisverkum þeirra. Ráðherrarnir urðu afar hneykslaðir þegar þeir voru gagnrýndir fyrir þetta, töldu illa að sér vegið, ýmsir hefðu nú þegið viðlíka ferðir áður, borgarstjórinn í Reykjavík væri alltaf boðinn í lax fyrsta veiðidag í Elliðaánum og svo væri nú ekki nema sjálfsagt að styðja við veiðiréttarhafa árinnar enda væri duglegt athafnafólk í forsvari fyrir þá. Allt er þetta góðra gjalda vert, en breytir ekki því að í hinum formlega óstaðfestu siðareglum segir að boðsferðir sem þessar skuli ekki þiggja nema þær séu í tengslum við embættisverk. Nú má spyrja: áttu ráðherrarnir þá ekki að þiggja boðið? Brutu þeir siðareglur með því að þiggja það? Það er ekki rétt að gerast dómari í málinu nema allir málavextir séu kunnir, en ef Samhæfingarnefndin hefði verið starfandi og ráðherrarnir hefðu leitað álits hennar er líklegt að hún hefði bent þeim á þetta ákvæði reglnanna. Í framhaldinu hefðu þeir þurft að hugsa betur um þátttöku sína. Kannski hefði það orðið til þess að þeir hættu við, kannski hefðu þeir hugsað þátttöku sína öðru vísi og sett í betra og skiljanlegra samband við embætti sín en gert var. Lærdómurinn er ósköp einfaldur: Ef maður gegnir valdamiklu opinberu embætti þarf maður að hugsa um gerðir sínar og sjá afleiðingar þeirra fyrir. Ráðherra getur ekki brugðist ókvæða við gagnrýni og sakað gagnrýnendur um ofstopa eða andúð á sér. Hann eða hún verður að gefa málefnaleg og skýr svör við spurningum sem vakna um einstakar athafnir. Hafi siðareglur í raun verið til hliðsjónar aukast líkur á því að hægt sé að gefa fullnægjandi svör.Landsbjörg safnar lífssýnum Mig langar að nefna annað dæmi um atvik sem hefði ekki þurft að koma upp, að minnsta kosti ekki með sama hætti, ef Samhæfingarnefndin hefði verið starfandi. Í vor tóku Landsbjörg og Íslensk erfðagreining höndum saman um söfnun lífssýna til að styrkja rannsóknagrunn fyrirtækisins. Fyrirtækið sendi stóru úrtaki þjóðarinnar bréf ásamt áhöldum til að útbúa lífssýni og óskaði eftir þátttöku. Svo gengu sjálfboðaliðar í hús og söfnuðu sýnum þeirra sem samþykktu að vera með. Fyrir hvert sýni fékk félagið ákveðna peningaupphæð að launum frá fyrirtækinu. En þá bar svo við að fjöldi fólks gagnrýndi herferðina harðlega. Bent var á að framkvæmd hennar vekti miklar efasemdir, ekki síst vegna þess að fólki væri gert erfitt að hafna þátttöku. Pressan sem lögð væri á þá sem lent hefðu í úrtakinu með því að tengja lífssýnagjöfina við stuðning við sjálfboðaliðastarf björgunarsveitanna væri þess eðlis að hún jaðraði við nauðung. Hér var bersýnilega farið af stað án þess að hugað væri að þeim viðbrögðum sem framkvæmdin kynni að vekja. Í stað þess að reynt væri að sjá fyrir á hvern hátt mögulegt væri að gagnrýna aðferðina sem beitt var létu menn sig slíka gagnrýni einu gilda. Hér hefði Samhæfingarnefndin á sama hátt getað leikið mikilvægt hlutverk. Þáttur Vísindasiðanefndar sem samþykkti söfnunina er of þröngur þar sem almennari siðferðileg viðmið þurfa að vera til hliðsjónar en þau sem hún starfar eftir. Eðlilegt hefði verið að setja leyfisveitingu ákveðin skilyrði sem dregið hefðu úr þeim göllum sem blöstu við, þegar farið var af stað með söfnunina. Samhæfingarnefndin hefur að sjálfsögðu engin völd til að setja skilyrði, en hún getur gefið viðeigandi aðilum ráð um slíkt. Auðvitað getur alltaf gerst að nefndir sem eiga að gefa álit séu mönnum fjötur um fót og torveldi það sem þeim finnst vera þjóðþrifaverk hverju sinni. En slíkt er eðlilegra að sjá sem áskorun um að gera betur frekar en sem leiðinlega truflun. Það er augljóst líka að oftast er tímasparnaður að því að vanda til áður en farið er af stað, geti menn með því losnað við gagnrýni og langvarandi ósamlyndi á síðari stigum.Lekinn í innanríkisráðuneytinu Og loks höfum við þriðja dæmið og það sem mest er rætt um þessa dagana, en það er auðvitað lekamálið. Eftir því sem ég fæ best séð hefur þetta mál greinst í sundur í nokkur ólík álitamál með tímanum. Spurningarnar eru að sama skapi ólíkar. Í fyrsta lagi varðar spurningin lekann sjálfan og hvernig rétt hefði verið að bregðast við honum. Í öðru lagi er spurningin um lögreglurannsóknina og hvernig rétt sé að bregðast við henni og í þriðja lagi um hvaða takmarkanir slík rannsókn setji samskiptum ráðherra við lögreglu og þá hvort hann sé fær um að vera í stöðu æðsta yfirmanns lögreglumála á meðan rannsóknin fer fram. Það er líklegt að betur hugsuð viðbrögð á fyrri stigum málsins hefðu komið í veg fyrir vandræðagang síðustu vikna. Ráðherra hefur kosið að saka gagnrýnendur sína um ósanngjarnar árásir, en þó blasir við að jafnvel þótt margt af því sem sagt hefur verið kunni að vera ósanngjarnt, þá er kjarni málsins eftir sem áður að samskipti hennar við lögreglu, svör við spurningum fjölmiðla og viðbrögð við einstökum atvikum málsins vekja efasemdir sem geta rýrt trúverðugleika embættisins. Í siðareglunum eru nokkur ákvæði sem auðvelt er að tengja við málsatvik lekamálsins og eru á ábyrgð ráðherra, alveg óháð því hver hennar þáttur í málinu reynist vera á endanum. Með því að nýta siðareglurnar og jafnvel eiga kost á að leita til óháðs aðila innan stjórnkerfisins á borð við Samhæfingarnefndina til að fá ráð um hvernig bregðast eigi við aðstæðum af þessu tagi er líklegra að komast megi hjá erfiðleikum síðar, en þegar brugðist er við af hörku og tekið til varna eins og það að taka mark á gagnrýni jafngildi því að viðurkenna misferli.Eru þessi mál pólitísk? Nú getur vel verið að ein ríkisstjórn sé lítt hrifin af því að þurfa að taka upp óbreytt það sem önnur ríkisstjórn hefur ákveðið. En eins og ég benti á í upphafi þessarar greinar eru siðareglur og tilteknar formlegar aðferðir til að bregðast við vanda sem er siðferðilegs eðlis löngu orðnar viðteknar í samfélaginu. Það skiptir engu máli hvaða pólitísku viðhorf eru ríkjandi í stjórnkerfinu hverju sinni þegar almenn, einföld og sjálfsögð siðferðileg viðmið eru annars vegar. Ríkisstjórnin er því sjálfri sér verst að humma fram af sér að koma þessum málum í sinn eðlilega farveg, og því ekki hægt að óska annars en að hún reki af sér slyðruorðið sem allra fyrst.
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun
Skoðun Sjálfstæðisflokkurinn – svarið fyrir fjölskyldur og ungt fólk Guðbjörg Oddný Jónasdóttir skrifar
Skoðun Fjárfestum í vellíðan – því hver króna skilar sér margfalt til baka Theodór Ingi Ólafsson skrifar
Skoðun Rödd mannréttinda, jöfnuðar og jafnréttis þarf að hljóma á Alþingi Þuríður Harpa Sigurðardóttir skrifar
Skoðun Af hverju er nauðsyn að fá Sósíalista inn á þing og í næstu ríkisstjórn? Ólafur H. Ólafsson skrifar
Samfylkingin hafnar einkavæðingu í skólakerfinu Arnór Heiðar Benónýsson,Anna María Jónsdóttir Skoðun