Skoðun

Ein kredda er ekki betri en önnur

Ögmundur Jónasson skrifar
jonhakon@frettabladid.is og sme@frettablaidid.is fjalla í örpistli á leiðarasíðu Fréttablaðsins um afstöðu mína til ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins um að sekta Mjólkursamsöluna um 370 milljónir fyrir meint brot á samkeppnislögum: „Ögmundur segir að kerfið kringum mjólkurframleiðslu virki vel, en það þyrfti að skoða betur fákeppni á smásölumarkaði. Afstaða Ögmundar virðist mótuð af þeirri skoðun að ríkisvernduð einokun sé eitthvað skárri en önnur einokun. Hann þarf að skýra betur hvernig það getur staðist.“

Ég vil gjarnan skýra afstöðu mína til þessa máls eins og hér er óskað eftir en þó vil ég byrja á því hér og nú að vekja athygli á að málið snýst ekki um val á milli kreddukenninga. Með öðrum orðum, að ég hljóti annaðhvort að vera með ríkiseinokun eða einokun á markaði. Eða á móti hvoru tveggja. Eða vilji þessa kreddu en ekki hina…?

Getur verið að ég taki hreinlega ekki afstöðu á þessum forsendum heldur vilji ég einfaldlega skoða hvaða fyrirkomulag reynist best í hverju tilviki og meta síðan í ljósi reynslunnar hvert beri að stefna?

Þegar mál af þessu tagi koma upp hef ég hvatt til þess að menn staldri við og gaumgæfi efnisþættina en byrji ekki á því að gefa sér niðurstöðu fyrirfram með hliðsjón af uppáhaldskreddu sinni.

Hvað varðar MS hef ég viljað spyrja hvort núverandi kerfi hafi reynst vel fyrir neytendur með tilliti til gæða og verðlags og hvernig það hafi gefist framleiðendum, íslenskum kúabændum. Er líklegt að annars konar kerfi gæfi betri raun? Hvaða fyrirkomulag tíðkast erlendis, hverjir hafa verið kostirnir og gallarnir? Að sjálfsögðu þarf þá einnig að skoða þátt smásöludreifingarinnar í verðmyndunarferlinu!

Yfirveguð skynsemi

Gefi menn sér að óheft samkeppni á þessu sviði gefi sjálfkrafa betri niðurstöðu en verðstýrt samvinnukerfi, þá er það engu minni kreddunálgun en sú að gefa sér fyrirfram að síðari kosturinn hljóti sjálfkrafa að vera betri. Hvorug nálgun er rétt.

Framangreindar eru þær spurningar sem ég hef leitað svara við allar götur frá því ég sem þáverandi formaður BSRB studdi það verðmyndunarkerfi mjólkurafurða sem við búum við. Á grundvelli slíkrar yfirvegunar hefur núverandi forysta BSRB einnig byggt sína afstöðu og þá einkum horft til hagsmuna neytenda. Mér finnst sönnunarbyrðin hvíla hjá þeim sem vilja breyta kerfinu því ég tel staðreyndirnar tala máli núverandi kerfis.

Kreddumenn streyma hins vegar fram á völlinn og rýna í formið en vilja sem minnst um innihaldið vita. Ég mun að sjálfsögðu verða við ósk Fréttablaðsins og gera nánar grein fyrir afstöðu minni en á þessu stigi læt ég nægja að nefna að málið snýst í mínum huga ekki um að velja á milli tveggja kreddukenninga. Kreddur eru aldrei góðar og koma ekki í stað yfirvegaðrar skynsemi sem byggir á því að skoða staðreyndir og horfa til reynslunnar.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×