Fjárskortur hefur valdið því að staða námsráðgjafa við Fjölbrautaskóla Suðurlands er ekki fullmönnuð sem hefur mikil áhrif á nám fanganna að sögn Ingu Guðrúnar. Máli hennar til stuðnings má benda á að í skýrslu Ríkisendurskoðunar 2008 kom fram að námsárangur fanga hafði batnað töluvert á milli ára og var það rakið til starfs námsráðgjafa sem þá starfaði í fullri stöðu. Mælti Ríkisendurskoðun með því að hlúa að því fyrirkomulagi til frambúðar.

Inga Guðrún fylgdi eftir átta föngum í námi á Litla-Hrauni í rannsókn sinni á vægi menntunar og fræðslustarfs í fangelsum. Á rannsókn sinni byggði hún meistararitgerðina „Nám er besta betrunin“ í uppeldis- og menntunarfræði árið 2010 sem er fyrsta eigindlega langtímarannsóknin á þessu sviði.
„Rannsóknir sýna fram á að þeir fangar sem leggja stund á nám eru ólíklegri en aðrir fangar til að lenda aftur í afplánun. Menntun er mikilvægur liður í því að draga úr ítrekunartíðni afbrota,“ segir hún og vísar meðal annars í rannsókn Helga Gunnlaugssonar frá árinu 2007. Menntunarstaða íslenskra fanga er verri en annars staðar á Norðurlöndum og stærri hluti hefur átt erfitt uppdráttar í grunnskóla. Hins vegar er áhugi á menntun meðal fanga meiri hér en á Norðurlöndunum og í því felast tækifæri. Þá er einnig merkilegt að á Íslandi eru fleiri fangar hlutfallslega í háskólanámi. Það eru ýmsar ástæður fyrir því að námsráðgjafi er mikilvægur í námi fanga. Brotinn námsferill þeirra krefst greiningar og það þarf að leita stuðnings fyrir þá fanga sem hafa ekki nauðsynlegar undirstöður úr grunnskóla.“
Vantar námsskrá
Fyrir utan skerta námsráðgjöf nefnir Inga Guðrún að fangar sækist eftir að fá að fara í verknám, en fái almennt ekki. Námið þyki of dýrt, þá sé aðgengi að námi ekki auðvelt í öllum fangelsum. Aðgengi að námi sé gott á Litla-Hrauni en verra í öðrum. Þá þurfi menntamálayfirvöld að semja námsskrá fyrir fanga. Námsskrá fyrir almenna nemendur henti ekki þessum hópi. Það eru önnur og fleiri markmið með námi fanga en almennra nemenda. Þessi hópur hefur orðið útundan,“ segir Inga Guðrún.
„Verknámið er það fyrsta sem var skorið niður eftir hrun. Því má ekki gleyma, að nám er lykill aftur út í samfélagið. Það veitir tækifæri sem dregur úr neikvæðum áhrifum þess að hafa verið fangi og að vera fyrrverandi fangi. Prófgráða er veganesti og verknámið veitir fleiri og skilvirkari tækifæri fyrir fanga. Það opnar skýrari leiðir út í samfélagið.“
Föngum er lögbundinn réttur til náms (Lög um fullnustu refsinga nr.49/2005), sem þýðir að námsframboð skuli alltaf standa til boða. „Það er afar misjafnt á milli fangelsa hvernig staðið er að þessum rétti og hvernig aðgengi að námi birtist. Það þarf að bjóða föngum sambærileg tækifæri til náms óháð því hvar þeir afplána. Þess vegna er mikilvægt að semja námsskrá þar sem skilgreint er að hverju skal stefnt.“

Segir fanga þurfa að kaupa skólabækur
