Skoðun

Samkeppnishæf svínarækt?

Ólafur Stephensen skrifar
Hörður Harðarson, formaður Félags svínabænda, fer með beinar og vísvitandi rangfærslur um málflutning Félags atvinnurekenda í grein í Fréttablaðinu í gær. Hann skrifar: „Þannig kom Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, fram í fjölmiðlum á dögunum og sagði að það eina sem skipti almenning máli þegar kemur að innkaupum væri vöruverð. Gæði, hollusta eða heilnæmi virtust engu máli skipta. Bætti hann svo við að ef innlendir aðilar gætu ekki keppt við verð sem erlendir aðilar bjóða þá væri allt eins gott fyrir þá að hætta sínum rekstri. Hvaða starfsemi yrði eiginlega eftir hér landi ef Ólafi yrði að ósk sinni?“

Útlegging Harðar á sér ekki stoð í raunveruleikanum. FA hefur bent á að geti svínaræktin ekki keppt við innflutning sem nemur 10% af innanlandsneyzlu, á tollum sem nema 30-40% af innkaupsverði, ættu svínabændur að snúa sér að arðbærari iðju. Undirritaður sagði í fréttum RÚV 12. desember: „Svo held ég hins vegar að innlendir framleiðendur ættu alveg að geta keppt á grundvelli gæða og hreinleika. Neytendur eiga þá bara einfaldlega að eiga valið á milli innlends svínakjöts og þess erlenda og geta valið á milli þess bæði á grundvelli verðs og upplýsinga um framleiðsluhætti og hvernig er búið að dýrunum.“ Sambærileg ummæli féllu á Bylgjunni 10. desember.

Auðvitað skiptir verðið ekki öllu máli þegar neytendur velja sér vöru. Einmitt þess vegna ættu íslenzkir svínabændur að geta mætt erlendri samkeppni. Þeir krefjast þess hins vegar af stjórnvöldum að lagðir séu ofurtollar á innflutning og andmæla þeirri rýmkun á innflutningsheimildum sem gripið hefur verið til undanfarin ár til að mæta skorti á svínakjöti.

Í raun eru engin rök fyrir að stjórnvöld verndi svínaræktina. Röksemdir um að verið sé að vernda hefðbundinn búskap í harðbýlu landi eiga ekki við. Svín eru alin af fáeinum umsvifamiklum fyrirtækjum í stórum iðnaðarskemmum, mest á innfluttu fóðri.

Þeirri spurningu er hins vegar auðsvarað hvaða starfsemi yrði eftir á Íslandi ef undirrituðum yrði að ósk sinni. Það yrði öflug atvinnustarfsemi sem þyrfti ekki tolla eða ríkisstyrki til að standast alþjóðlega samkeppni. Það á við um flestar atvinnugreinar á Íslandi í dag.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×