Skoðun

Jólatíð

Ólafur Halldórsson skrifar
Stundum bregður fyrir þeim misskilningi að jól séu eingöngu fæðingarhátíð Krists, eða Kristsmessa. Jólahátíðin er ævaforn sólhvarfahátíð á norðurhveli jarðar og sem slík er hún hátíð allra, jafnt trúleysingja sem allra trúa fólks. Frá fornu fari hafa jólin verið birtu-, gleði- og gjafahátíð. Það þótti auðvitað tilefni samfagnaðar hér áður fyrr, og þykir enn, þegar sólin tók að hysja sig ofar á himininn í síðari hluta desember.

Vetrarsólhvörf, þegar sólin fer að hækka á lofti eftir að hafa lækkað í hálft ár, eru 20. - 21. desember. Fljótlega upp úr því kemur í ljós hvernig þetta gengur hjá henni. Rómverjar héldu vetrarsólhvörfin hátíðleg og tilbáðu þá hina ósigruðu sól, Sol Invictus. Síðan gerðist það smám saman á 4. og 5. öld að farið var að minnast fæðingar Jesú á þessum birtu- og gleðidögum, en um raunverulegan fæðingartíma Jesú veit enginn. Þetta var vel til fundið því fæðing Jesú er í huga kristinna manna mikill birtu- og gleðiatburður.

Á norðurhveli eru vetrarsólhvörfin enn greinilegri en suður við Miðjarðarhaf. Hugtakið jól er notað í norrænum málum, og stundum bregður því enn fyrir í ensku þótt einhver engilsaxneskur biskup hafi tekið upp á því að kalla þessa hátíð Kristsmessu (Christmas). Englendingar tala stundum upp á gamla mátann um Yuletide, Jólatíð.

Gleðilega jólatíð, með von og jafnvel vissu um að sólin muni bráðlega taka að fikra sig upp himinhvelið, nú eins og endranær.




Skoðun

Sjá meira


×