Vísindamenn sem fylgjast með útbreiðslu ebóluveirunnar í Gíneu segja að veiran hafi nú stökkbreyst.
Í frétt BBC kemur fram að vísindamenn við Institut Pasteur í Frakklandi, sem fyrstir tóku eftir útbreiðslu veirunnar í mars síðastliðinn, kanni nú hvort veiran sé orðin enn meira smitandi.
Að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar hafa rúmlega 22 þúsund manns smitast af veirunni og 8.795 látist síðasta tæpa árið í Vestur-Afríkuríkjunum Gíneu, Síerra Leóne og Líberíu.
Fleiri hundruð blóðsýni hafa nú verið tekin frá smituðum einstaklingum í Gíneu. Er fylgst með hvernig veiran breytist og rannsaka vísindamenn stofnunarinnar hvort hún geti smitast auðveldar milli manna.
„Við vitum að veiran breytist nokkuð mikið,“ segir erfðafræðingurinn Anavaj Sakuntabhai í samtali við BBC. Segir hann að veiran gæti allt eins stökkbreyst þannig að hún verði ekki eins skaðleg, en nauðsynlegt sé að fylgjast með þróun hennar.
