Erlent

Biðla til Belga en tvær til­lögur á borðinu

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Merz og von der Leyen munu funda með forsætisráðherra Belgíu í dag og snæða með honum í kvöld.
Merz og von der Leyen munu funda með forsætisráðherra Belgíu í dag og snæða með honum í kvöld. Getty/Thierry Monasse

Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, er sögð hafa lagt fram tvær tillögur um hvernig Evrópuríkin gætu aðstoðað Úkraínumenn við að fjármagna baráttu sína gegn Rússum næstu tvö árin.

Annar möguleikinn er að Evrópusambandið taki sameiginlegt lán á alþjóðlegum mörkuðum og hinn að Úkraína fái lán gegn tryggingum í frystum eignum Rússa. Stjórnvöld í Kænugarði myndu síðan endurgreiða lánið með skaðabótum frá Rússum eftir að átökum lýkur. 

Báðar tillögurnar eru vandkvæðum bundnar en mörg aðildarríki eru á móti því að taka þátt í sameiginlegum lántökum. Þá krefst slík aðgerð einróma samþykkis, sem gæti orðið erfitt í ljósi andstöðu Ungverjalands við fjárhagsaðstoð til handa Úkraínu.

Hin leiðin hefur mætt hörðum mótmælum í Belgíu, þar sem flestar hinar frystu eigna eru geymdar. Belgar óttast bæði hefndaraðgerðir og að verða rukkaðir um endurgreiðslu eignanna af hálfu Rússa.

Von der Leyen og Friedrich Merz, kanslari Þýskalands, munu funda með Bart De Wever, forsætisráðherra Belgíu, í dag og snæða með honum í kvöld. Belgar virðast þó nokkuð einarðir í afstöðu sinni en utanríkisráðherrann Maxime Prévot sagði í gær að það væri upplifun Belga að ekki væri hlustað á þá. Hvatt hann til þess að hin leiðin yrði farin; að taka sameiginlegt lán.

Merz varaði við því í aðsendri grein í Frankfurter Allgemeine Zeitung að ákvarðanir Evrópuleiðtoga á næstu dögum myndu ákvarða sjálfstæði Evrópu til framtíðar. Þeir þyrftu að senda Rússum, sem hygðu á landvinninga í Evrópu, skýr skilaboð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×