Handbolti

Aron spilar ekki gegn Egyptum - verður líklega ekki meira með

Eiríkur Stefán Ásgeirsson í Doha skrifar
Aron Pálmarsson, stórskytta íslenska landsliðsins í handbolta, spilar ekki á móti Egyptum á morgun, lykilleik fyrir íslenska liðið. Ísland verður að vinna til að komast í 16 liða úrslit.

„Hann er með einkenni heilahristings og verður að taka því rólega í dag. Hann má ekkert æfa og má ekki spila á morgun heldur,“ sagði Örnólfur Valdimarsson, læknir íslenska landsliðsins, við Vísi í dag.

Aron fékk högg á andlitið í fyrri hálfleik gegn Tékkum í gær og sneri ekki aftur. „Eins og hann var í morgun þá var hann með höfuðverk þannig ég vil ekki láta hann spila á morgun,“ sagði Örnólfur sem býst ekki við að hann verði meira með.

„Það er líklegra að hann sé frá en með svona heilahristing þá verður maður að fara eftir einkennum. Hann verður fyrst að vera einkennalaus áður en hann byrjar að hreyfa sig,“ sagði læknirinn.

„Ef hann verður einkennalaus í dag eða á morgun þá fær hann að hreyfa sig á morgun og þá sjáum við til hvernig hann verður. Ef hann verður fínn við áreynsly þá má hann spila en ef hann er með einkenni þá má hann ekki spila.“

Það má hlusta á allt viðtalið við Örnólf í spilaranum hér að ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×