Innlent

Erfitt fyrir ráðherra að fá skýr svör frá Strætó um ferðaþjónustu fatlaðra

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, hefur óskað eftir fundi með borgarstjóra vegna ferðaþjónustu fatlaðra.
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, hefur óskað eftir fundi með borgarstjóra vegna ferðaþjónustu fatlaðra. Vísir/Daníel
Eygló Harðardóttir, félagsmálaráðherra, segir atvikið í gær þar sem Ólöf Þorbjörg Pétursdóttir, þroskaskert stúlka gleymdist í bíl ferðaþjónustu fatlaðra og var týnd í marga klukkutíma mjög alvarlegt.

„Við höfum verið að óska eftir upplýsingum frá Strætó síðan í janúar um hvernig verið sé að gæta að öryggi fatlaðra en það hefur verið erfitt fyrir okkur að fá skýr svör varðandi það,“ segir Eygló í samtali við Vísi. Hún hafi því talið ástæðu til að óska eftir fundi með borgarstjóra og fara yfir hver er ábyrgð sveitarfélaga á ferðaþjónustu fatlaðs fólks.

„Það er ábyrgð sem er einfaldlega ekki hægt að framselja til neins annars,“ segir Eygló.

Sjá einnig: Svona týndist stúlkan.

 

Hún segist enn bíða eftir að fá svör frá borgarstjóra um hvenær þau geti fundað. Þá mun velferðarnefnd Alþingis funda um málið á morgun og mun Eygló mæta á þann fund.

„Ég mun svo í framhaldinu hafa samband við önnur sveitarfélög og forsvarsmenn þeirra sem nýta sér þjónustu Strætó. Þetta verður einfaldlega að lagfæra.“


Tengdar fréttir

Segir yfirvöld verða að axla ábyrgð

Málefnafulltrúi Sjálfsbjargar kallar eftir að Strætó hf. og borgaryfirvöld axli ábyrgð. Formaður borgarráðs segir málið verða tekið fyrir í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×